Þorsteinn Erlingsson

images.jpgSunnudaginn 17. apríl 1921 var húsfyllir í Nýja bíói í Reykjavík. Guðmundur Friðjónsson skáld á Sandi flutti þá erindi um bolsévisma, eins og sósíalismi var þá oft nefndur, því að bolsévíkar undir forystu Vladímírs Leníns höfðu hrifsað til sín völd í Rússlandi 1917. Erindi Guðmundar birtist í greinasafninu Uppsprettulindum 1921 og er hið mergjaðasta. Var skáldið mjög andvígt sósíalisma. Eftir að Guðmundur hafði flutt erindi sitt, ruddist sósíalistinn Ólafur Friðriksson ritstjóri óboðinn upp á svið og andmælti honum. Gerðu fundarmenn hróp að Ólafi. Á meðal þeirra voru tvær ungar stúlkur, Svanhildur Þorsteinsdóttir og Ásfríður Ásgrímsdóttir.

Svanhildur var dóttir Þorsteins Erlingssonar skálds, sem látist hafði langt fyrir aldur fram 1914. Sonur hennar, dr. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur, hefur vakið athygli mína á dagbókarbroti eftir Svanhildi frá 18. apríl 1921: „Halló, ég er orðin stjórnmálakona, Í morgun fékk ég bréf. Fyrst var skrifuð upp heil röð af kvæðum eftir pabba. Síðan stendur: „Getur það verið að dóttir Þorsteins Erlingssonar, eina byltingarmannsins í skáldskap, sé á móti þeim mönnum sem einir hafa hug og kjark til að uppfylla hugsjónir hans?“ Þessu varð ég reglulega reið, því pabbi var hægri manna sósíalisti en var dáinn þegar Bolshevisminn varð til. Hann vildi fá allt með framþróun, en ekki blóði og manndrápum.“

Ungur piltur, Stefán Pjetursson, sem aðhylltist þá kommúnisma, en hvarf síðar frá honum, mun hafa skrifað bréfið til Svanhildar. En athyglisvert er, að þessi fimmtán ára stúlka skyldi geta gert sama greinarmun og heimspekingarnir John Stuart Mill  og Robert Nozick á sjálfvöldum og valdboðnum sósíalisma. Mill taldi líklegt, að sósíalisminn myndi sigra, en þá vegna þess, að fyrirtækjum í eigu launþega myndi vegna betur en fyrirtækjum kapítalista. Og Nozick sagðist ekki vera á móti sósíalisma, ef menn völdu hann fyrir sjálfa sig og ekki aðra, og vísaði á samyrkjubúin í Ísrael: Þeir, sem vildu verða sósíalistar, fluttust þangað, en neyddu aðra ekki þangað með sér. Þessi var stjórnmálaskoðun Þorsteins Erlingssonar, ef marka má dóttur hans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. febrúar 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband