Málstaður Íslendinga

Eflaust hefur einhverjum brugðið, þegar spekingar úr Háskólanum átöldu mig fyrir að taka málstað Íslendinga í deilum við Breta. Háskóli Íslands var stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911, vegna þess að þjóðin undi því ekki, að íslenskir háskólanemar þyrftu að læra danska sögu, danskar bókmenntir, dönsk lög. Þjóðin vildi, að þeir lærðu íslenska sögu, íslenskar bókmenntir, íslensk lög. Einar Arnórsson lagaprófessor setti saman bækur um tilkall Íslendinga til sjálfstæðis. Sigurður Nordal íslenskuprófessor skilgreindi í skrifum sínum íslenska þjóðarvitund. Ágúst H. Bjarnason heimspekiprófessor fræddi lesendur á vandaðri íslensku um helstu afrek mannsandans. Sagnfræðikennarar lýstu baráttu Íslendinga við erlent vald, allt frá því að Haraldur blátönn þreifaði hér fyrir sér og síðan Ólafur digri.

Allir þingmenn skrifuðu undir ávarp til Kristjáns IX. Danakonungs árið 1873, þar sem sagði: „Saga vor á hinum liðnu öldum, frá því er landið fyrst byggðist, sem að ári eru 1000 ár, sýnir ljóslega, að það er frelsið, sem hefur veitt þjóð vorri fjör og afl, fylgi og framtak í öllum greinum, en að það er ánauð og ófrelsi, sem hefur deyft hana og kúgað.“ Og íslenska samninganefndin 1918 lagði fram yfirlýsingu á fyrsta fundinum með Dönum 1. júlí 1918, þar sem sagði: „Þessi atriði, sérstök tunga og sérstök menning, teljum vér skapa oss sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfstæðis.“ Fræg eru einnig vísuorð Snorra Hjartarsonar: „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, þér var ég gefinn barn á móðurkné.“ Og enn orti skáldið: „Ísland, í lyftum heitum höndum ver ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.“

Lítt hefði þá Jón Sigurðsson, Einar Arnórsson, Sigurð Nordal, Ágúst H. Bjarnason og Snorra Hjartarson grunað, að það yrði sagt mönnum til hnjóðs, að þeir verðu í lyftum heitum höndum heiður Íslands. Því síður hefði þá grunað, að sumir íslenskir menntamenn vildu frekar feta í fótspor Ditmars Blefkens, sem sagði það helst frá Íslendingum, að þeir væru latir og lúsugir, en Arngríms lærða, sem varði þjóð sína með oddi og egg. Berlegast kom þetta í ljós í Icesave-deilunni við Breta, þegar margir spekingar úr Háskólanum tóku málstað Breta. En hvað var unnið við að stofna íslenskan háskóla í því skyni að hætta að læra dönsk lög, ef átti aðeins að skipta þeim út fyrir bresk lög?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. janúar 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband