Bandarísk leyniskjöl um Ísland

Þau skjöl bandarískra sendimanna, sem prófessor Þór Whitehead gróf upp fyrir mörgum árum í söfnum vestra, sýndu takmarkaðan skilning þeirra á íslenskum aðstæðum og höfðu að geyma ýmsar missagnir. Til dæmis töldu Bandaríkjamenn árin 1941–1944, að íslenskir sósíalistar væru bestu vinir þeirra. Stalín hafði þá skipað sósíalistum að leggja Bandaríkjamönnum allt það lið, sem þeir mættu, vegna þess að Bandaríkin veittu Stalín ómetanlega aðstoð eftir árás Hitlers á Rússland sumarið 1941. Jafnframt vanmátu Bandaríkjamenn hinn snjalla stjórnmálamann Ólaf Thors og misskildu hrapallega, þegar hann brá fyrir sig gamansemi. Hlustuðu þeir því vandlegar á ýmsa óvildarmenn Ólafs.

Svipað er að segja um Wikileaks-skjölin frá 2007–2009, sem birtust fyrir nokkru, en þau eru leyniskjöl úr bandaríska utanríkisráðuneytinu, sem laumað var á Netið. Davíð Oddsson var traustasti vinur Bandaríkjanna á Íslandi og átti sinn þátt í því, að Íslendingar skipuðu sér í raðir hinna viljugu þjóða í Íraksstríðinu 2003. Hann myndaði góð tengsl við þrjá Bandaríkjaforseta, Bush-feðga og Clinton, eins og ég get borið vitni um úr ferð til Washington-borgar í júlí 2004, þegar við sungum afmælissöng fyrir Bush yngri í sporöskjulaga skrifstofunni. Davíð hafði hins vegar ekki mikinn tíma til að sitja að skrafi við erlenda skrifstofumenn í sendiráðum, sérstaklega ekki eftir að hann varð seðlabankastjóri í október 2005. Í Wikileaks-skjölunum er talað heldur óvinsamlega um Davíð, og greina kunnugir þar bergmál radda úr Samfylkingunni.

assad_isg_2008.jpgÍ Wikileaks-skjölunum er hins vegar talað vel um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra 2007–2009, þrátt fyrir að hún gengi oft þvert gegn sjónarmiðum og hagsmunum Bandaríkjanna. Til dæmis tók hún eindregna afstöðu með Palestínumönnum gegn Ísrael og heimsótti Assad Sýrlandsforseta í júní 2008, jafnframt því sem hún sendi eitt sinn fulltrúa sinn til Írans (í því skyni að reyna að fá stuðning landsins við hið fráleita framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna). En líklega er skýrasta dæmið um það, hversu skeikult mat bandarískra sendimanna á íslenskum aðstæðum var, að þeir töldu Jón Guðna Kristjánsson, umsjónarmann Spegilsins í Ríkisútvarpinu, heppilegasta manninn til að fara í fræðslunámskeið um Afganistan til Washington-borgar vorið 2007.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. janúar 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband