Heimildagildi opinberra skjala

Við Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur ræddum um heimildagildi opinberra skjala og ýmislegt fleira á fróðlegum og fjölsóttum fundi í Háskólanum miðvikudaginn 14. janúar 2015. Þar var meðal annars vikið að Wikileaks-skjölunum, og benti ég á, að í þeim væri að finna staðfestingu á því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neitaði að afgreiða áætlun um endurreisn íslenska hagkerfisins, nema Íslendingar létu undan Icesave-kröfu Breta (sem var jafnan kölluð Icesave-skuld Íslendinga í fréttum Ríkisútvarpsins). Ég kvað líka ýmis skjöl úr bandaríska sendiráðinu sýna, að þar á bæ hefðu menn helst umgengist vinstri menn: greining sendiráðsins á aðstæðum bergmálaði sjónarmið þeirra. Og ef til vill öfugt: Sendiráðsmenn hættu til dæmis að tala við Styrmi Gunnarsson ritstjóra, eftir að hann gagnrýndi viðskilnað Bandaríkjamanna við Íslendinga árið 2006, þegar varnarsamstarfið var rofið. Vildu þeir aðeins heyra kurteisishjal?

Í Wikileaks-skjölunum má meðal annars lesa, að bandaríska sendiráðið hafi árið 2007 valið Jón Guðna Kristjánsson, fréttamann á Ríkisútvarpinu, til að fara í fræðsluferð um Afganistan til Washington og Brüssel (ekki til sjálfs Afganistans, eins og misskilja mátti af glæru í fyrirlestri mínum). Jón Guðni væri virtur fréttamaður, og Spegillinn, sem hann hefði umsjón með, væri einn áhrifamesti fréttaþáttur landsins. Síðan var vitnað í samtöl sendiráðsmanna við Jón Guðna, sem hefði áhuga á að skýra fyrir íslenskum hlustendum hina flóknu atburðarás í Afganistan. Höfð voru eftir ýmis sjónarmið Jóns Guðna. Þegar Jón Guðni var síðar spurður um þetta opinberlega, aftók hann, að hann hefði haft eitthvert samband við sendiráðið. Þetta væri uppspuni þess. Hann hefði verið valinn af Ríkisútvarpinu til að fara í þessa fræðsluferð um Afganistan. Hver hefur rétt fyrir sér? Þetta er ef til vill eitt dæmið um það, sem Guðni Th. Jóhannesson benti á í fyrirlestri sínum, að skýrslur erlendra sendimanna þurfa ekki að segja alla söguna. En fróðlegast kann þó að vera, að bandaríska sendiráðið skyldi hafa slíkt dálæti á umsjónarmanni Spegilsins, sem gárungarnir kalla Hljóðviljann.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. janúar 2015.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband