Nýjar heimildir?

Dr. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur birti í síðasta hefti Sögu fróðlega ritgerð um nýjar heimildir um íslenska bankahrunið. Þær eru annars vegar wikileaks-skjöl, aðallega skýrslur bandaríska sendiráðsins á Íslandi til utanríkisráðuneytisins í Washington-borg, hins vegar skjöl, sem Guðni aflaði sér fyrir skömmu úr breska utanríkisráðuneytinu með skírskotun til upplýsingalaga.

Guðni viðurkennir, að heimildagildi slíkra erlendra skjala er oft takmarkað, því að höfundarnir eru oft að hugsa um eigin hagsmuni frekar en að segja söguna, eins og hún var. Hann telur hins vegar, að wikileaks-skjölin veiki frekar en styrki þá kenningu, sem hann ber mig og Styrmi Gunnarsson fyrir, að bandarískir ráðamenn „hafi ýtt Íslendingum út á kaldan klaka, vitandi vits“. Mín kenning er að vísu önnur. Íslendingar voru skildir eftir úti á köldum klaka, en ekki ýtt þangað. Fyrir henni hef ég ýmis rök. En mér finnast wikileaks-skjölin aðallega sýna, við hverja bandarískir sendimenn töluðu helst: fólk í Samfylkingunni. Það hafði nógan tíma og mikla ánægju af masi. Því er við að bæta, að Guðni kemst að þeirri niðurstöðu með því að skoða wikileaks-skjölin, að líklega hafi Davíð Oddsson ekki afflutt samtal sitt við rússneska sendiherrann að morgni 7. október. Rússalánið hafi staðið Íslendingum til boða. Fyrir þessu hef ég líka sjálfstæðar heimildir.

Skjölin frá breska utanríkisráðuneytinu, sem Guðni aflaði sér, eru frekar rýr í roðinu, vegna þess að svo margt er þar yfirstrikað. Þó telur hann þau veita vísbendingu um, að bresk stjórnvöld hafi ekki beitt hryðjuverkalögunum á Íslendinga vegna þeirra ummæla Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra að kvöldi 7. október 2008, að Íslendingar ætluðu sér ekki að greiða „skuldir óreiðumanna“. Því hafa Ólafur Arnarson og fleiri haldið fram. Raunar þarf ekki að hrekja þá kenningu þeirra, því að breskir ráðamenn hafa sjálfir aldrei notað þá skýringu, heldur jafnan vísað í samtöl sín við íslenska ráðamenn. Einnig virðast þeir hafa misskilið neyðarlögin frá 6. október 2008.

Við Guðni ræðum, hvaða ljósi nýjar heimildir bregða á bankahrunið 2008, meðal annars Rússalánið, starfsemi sendiráða Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi, hryðjuverkalögin bresku og sjónvarpsviðtalið við Davíð Oddsson, á fundi í Háskólatorgi Háskóla Íslands, stofu HT-101, miðvikudaginn 14. janúar kl. 12-13.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. janúar 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband