Lagði Hong Kong undir sig Kína?

Ég er á leið til Hong Kong til að sitja aðalfund Mont Pelerin-samtakanna, en þau eru alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna, sem þeir Friedrich von Hayek, Milton Friedman, Karl Popper, Ludwig von Mises og fleiri stofnuðu 1947 til að bera saman bækur sínar að minnsta kosti annað hvort ár. Nafnið Hong Kong merkir „ilmandi höfn“. Borgin á sér fróðlega sögu. Hún varð bresk nýlenda eftir ópíumstríð Breta og Kínverja 1842, en Bretar sömdu við Kínverja um, að hún yrði sjálfstjórnarsvæði innan Kínaveldis 1997. Fáir hefðu trúað því árið 1945, þegar um 600 þúsund örsnauðir Kínverjar bjuggu í nýlendunni og allt var í rúst eftir fjögurra ára hernám Japana, að hún ætti eftir að verða skýrt dæmi um sköpunarmátt kapítalismans. Breska nýlendustjórnin var nógu sterk til að vernda eignaréttindi, en of veik til að hafa víðtæk afskipti af atvinnulífinu. Hafa framfarir óvíða orðið örari. Hagkerfið hefur lengi mælst eitt hið frjálsasta í heimi, og íbúar borgarinnar njóta nú svipaðra meðaltekna og Bandaríkjamenn og hærri en flestir Evrópubúar.

Þegar ég bjó í Hong Kong 1986–1987, höfðu margir borgarbúar áhyggjur af því, að eftir tíu ár fengju Kínverjar þar yfirráð. En ég spurði á móti, hvort Hong Kong gæti ekki orðið Kína fordæmi frekar en freisting. Væri ekki hugsanlegt, að stjórnendur Kína lærðu af íbúum Hong Kong, hvernig ætti að skapa verðmæti? Og ég skrifaði í DV 19. janúar 1987: „Þegar ég lít út um gluggann á skrifstofu minni hér á 28. hæð í háhýsi í miðborg Hong Kong og horfi á verslanir fullar af varningi og fólki, ímynd velmegunar, lífs og fjörs, en renni síðan augunum í átt að landamærunum, þar sem fátæktin blasir við, læðist að mér grunur. Hann er sá, að það verði ekki Kína, sem leggi undir sig Hong Kong árið 1997, heldur Hong Kong, sem leggur undir sig Kína … “

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. ágúst 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband