Palestínu-Arabar í Danmörku

Hegel sagði í inngangi að Söguspeki sinni, að þjóðir hefðu aldrei lært neitt af sögunni. Sennilega er eitthvað til í þessu. Íslendingar hyggjast nú taka við um 100 hælisleitendum frá Palestínu. Þetta er sami fjöldi og önnur Norðurlönd ætla að taka við til samans (en því til viðbótar taka þau auðvitað við eigin ríkisborgurum). En hvað skyldi sagan segja okkur?

Árið 1991 komst hópur 321 Palestínu-Araba til Danmerkur. Þeir leituðu hælis, en var synjað af þar til bærum yfirvöldum. Þá lögðu um hundrað þeirra undir sig kirkju í Kaupmannahöfn, og reis nú samúðarbylgja með þeim. Kim Larsen hélt tónleika þeim til stuðnings, og Anker Jørgensen, fyrrverandi forsætisráðherra, heimsótti þá í kirkjuna. Samþykktu vinstri flokkar á þingi sérstök lög árið 1992 um að veita fólkinu hæli.

Dönsk ráðuneyti hafa birt tölur um, hvernig þessum hópi hefur reitt af árin 1992–2019. Af þessum 321 Palestínu-Araba hafa 204, um tveir þriðju, hlotið dóma fyrir margvísleg afbrot, þar af 71 fangelsisdóma. Af þessum 321 eru 176 eða röskur helmingur á framfæri hins opinbera.

Sumir benda á, að tölurnar séu ekki eins slæmar fyrir afkomendur þess. Þeir eru 999 talsins. Af þeim hafa 337, einn þriðji, hlotið dóma fyrir margvísleg afbrot, þar af 132 fangelsisdóma. Af þessum 999 manna hópi eru 372 á bótum, en tekið er fram, að af þeim bótaþegum séu 194 í starfsþjálfun.

Auðvitað eru Palestínu-Arabar að upplagi hvorki betri né verri en aðrir. En í menningu þeirra er ofbeldi liðið og jafnvel lofsungið og ekkert talið rangt við að þiggja bætur, þótt fólk sé fullhraust og geti unnið fyrir sér sjálft.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband