Skjól eða gildra?

Einn samkennari minn, dr. Baldur Þórhallsson prófessor, sem er sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum, hefur í röð ritgerða í virtum, erlendum tímaritum sett fram þá kenningu, að smáríki eins og Ísland þurfi skjól. Þess vegna hafi verið rökrétt að semja við Noregskonung um slíkt skjól 1262. Þessi kenning hans er síður en svo fráleit. Smáríki þurfa skjól, eins og kom fram í bankahruninu 2008, þegar Bandaríkin veittu okkur ekki lið, eins og þau höfðu gert í þorskastríðunum á 20. öld. En þegar menn skríða í skjól, geta þeir lent í gildru. Þetta gerðist einmitt á Íslandi, eins og prófessorarnir dr. Þráinn Eggertsson hagfræðingur og dr. Gísli Gunnarsson sagnfræðingur hafa sýnt fram á. Ein ritgerð Þráins um þetta er stórmerk, en hún birtist í bókinni Háskalegum hagkerfum. Hún er um þá einföldu spurningu, hvers vegna Íslendingar hafi soltið í mörg hundruð ár, þótt gnótt sjávarfangs væri skammt undan. Svarið er, að fámenn stétt landeigenda og hinn fjarlægi konungur, sem lengst sat í Kaupmannahöfn (en norska konungsættin mægðist við hina dönsku 1380), sameinuðust um, að landbúnaður skyldi vera eini löglegi atvinnuvegurinn, þótt landið væri harðbýlt og sjávarútvegur miklu arðbærari.

Þráinn benti á, að tæknin til fiskveiða var til. Hingað sigldu stór fiskiskip frá Englandi og jafnvel Spáni. En hvers vegna urðu fiskveiðar þá fullkomin aukageta á Íslandi öldum saman og aðeins stundaðar á opnum árabátum? Hvers vegna var útlendingum bönnuð hér veturseta og öllum gert að skrá sig á lögbýli? Landeigendur gerðu þetta til þess að missa ekki vinnuaflið að sjávarsíðunni og valdið yfir þróuninni. Þótt konungur tapaði einhverjum skatttekjum á því, að þegnar hans yrðu fátækari en ella, hélt hann landinu, en óttaðist ella, að það gengi undan honum, eins og það hafði næstum því gert á „ensku öldinni“ frá því um 1415 fram til loka fimmtándu aldar. Konungur vildi frekar litlar skatttekjur en engar. Afleiðingin var, að Íslendingar, sem höfðu skriðið í skjól, festust í fátæktargildru, sem þeir losnuðu ekki út úr fyrr en á nítjándu öld. Einn möguleiki er því að reyna að breyta og auka kenningu Baldurs: Smáríki þurfa skjól, en aðallega viðskiptafrelsi og varnarsamstarf.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. september 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband