Hann hefur enst

6-220.jpgFræg er fyndni Davíðs Oddssonar, á meðan hann var bankastjóri Seðlabankans, eftir að Jón Sigurðsson framsóknarmaður lét þar af embætti eftir stutta viðdvöl: „Eini Jón Sigurðssonurinn, sem hefur eitthvað enst í Seðla­­bankanum, er sá á fimmhundruðkallinum.“ Áður hafði Jón Sigurðsson Alþýðuflokksmaður aðeins haft stutta viðdvöl í bankanum.

Þessi orð eiga þó ekki aðeins við sem fyndni. Þjóðhetjan Jón Sigurðsson forseti, sem á afmæli í dag og mynd er af á fimm hundruð króna seðlinum, hefur enst furðuvel. Skoðanir hans eiga jafnvel við nú og fyrir hálfri annarri öld. Hann er einn hinna örfáu sígildu höfunda, sem höfðu nægilega trausta þekkingu, dómgreind og yfirsýn til að standast tímans tönn.

Jón sagði til dæmis um þingmenn í Nýjum félagsritum 1845:

Það er skylda þingmanna, bæði við land­ið og þjóð­ina, við þingið og við ­sjálfa sig, að þola enga ósiðsemi á þeim stað eða neitt, sem getur rýrt tign eða álit þings­ins meðal alþýðu, og þetta ætla ég muni vera hægt, eins á Íslandi og ann­ars staðar.

Má ekki beina þessum orðum gegn Birni Vali Gíslasyni og öðrum þingmönnum, sem gengið hafa fram af okkur síðustu daga með ruddalegri framkomu á þingi?

Jón sagði í formála að Tveimur æfisögum útlendra merkismanna 1839:

Sér­hverri þjóð vegnar vel, sem hefir lag á að sjá kosti landsins, og nota þá, eins og þeir eiga að vera notaðir. Lönd­in eru lík einstökum jörð­um, ekkert land hefir alla kosti, og engu er heldur alls varnað. En það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel, en sjá til, að ókostirnir gjöri sem minnst tjón.

Er þessi orð okkur ekki brýning um að nýta vel og skynsamlega gjöfulustu náttúruauðlindir okkar, fiskistofnana, fallvötnin, jarðvarmann og náttúrufegurðina?

Jón sagði í hinni frægu ritgerð sinni „Um Alþing á Íslandi“ í Nýjum félagsritum 1841:

Kjör manna, stétta og þjóða eru svo sam­tvinnuð, að eins gagn er í rauninni allra gagn og eins skaði allra skaði.

Hér hafnaði forsetinn berum orðum þeirri stéttabaráttu, sem sósíalistar tuttugustu aldar reyndu að efna til og olli ómældum skaða.

Jón Sigurðsson sagði í Nýjum félagsritum 1844:

Margir hinir vitrustu menn, sem ritað hafa um stjórn­araðferð á Englandi og rannsakað hana nákvæmlega, hafa álitið félagsfrelsið aðalstofn allrar framfarar þar á landi. Hin mikilvægustu fyrirtæki, bæði til andlegra og líkamlegra þarfa þjóð­arinnar, tilbúningur á veg­um, höfn­um, brúm, hjólskipum og mýmörg­um öðr­um stórsmíðum, sem stjórnin hefði með engu móti getað afkastað eða kom­ist yfir að láta gjöra, er allt gjört með fé­lagssamtökum manna.

Með félagsfrelsi átti forsetinn við atvinnufrelsi. Fróðlegt er, að Jón skyldi vilja sækja fyrirmyndir til hinna engilsaxnesku þjóða.

Jón sagði í Nýjum félagsritum 1860:

Maður verður að venja sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar og venja sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta, svo þeir geti unnið saman til al­mennra heilla.

Hér herti Jón á frelsisboðskap sínum, og enn á hann við, þegar við búum við stjórn, sem telur allt vald best komið í eigin hendi.

Jón sagði í Nýjum félagsritum 1843:

Ekkert land í veröldinni er ­sjálfu sér ein­hlítt, þó heimska mann­anna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekk­ert er heldur svo, að það sé ekki veit­anda í ein­hverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt versl­anin, þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú versl­anin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hef­­ir aflögu, þangað sem hún getur feng­ið það, sem hún girnist.

Eins og sést á þessu, var Jón fylgismaður verslunarfrelsis með réttum rökum: Það auðveldar verkaskiptingu milli þjóða. Þeir, sem telja, að „nýfrjálshyggja“ sé í andarslitrunum, ættu að lesa rit „nýfrjálshyggjumannsins“ Jóns Sigurðssonar. Hann hefur enst furðuvel, — ekki aðeins á fimm hundruð króna seðlinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband