„Sótt að sannleikanum“

stefanolmynd_403847_1001443.jpgStefán Ólafsson prófessor var einn þeirra, sem fluttu fyrirlestra um bankahrunið, aðdraganda þess og afleiðingar, í fundaröð Háskóla Íslands. Hann kallaði fyrirlestur sinn „Sótt að sannleikanum. Um tíðaranda hroka, siðleysis og hótana“. Allur er lesturinn ein samfelld árás á frjálshyggju.

Mér finnst hins vegar Stefán sýna nokkurn hroka með því að tala í nafni sannleikans með ákveðnum greini. Auðvitað á hver maður sitt sannleiksbrot, Stefán líka. En hann hefur ekki sýnt staðreyndum þá virðingu, sem vísindamenn eiga að gera, eins og ég sýni fram á í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.

Ég skal nefna nokkur dæmi:

Stefán hélt því fram, að kjör ellilífeyrisþega væru hér lakari en annars staðar á Norðurlöndum. Hann mótmælti harðlega tölum frá norrænu tölfræðinefndinni, sem sýndu, að á Norðurlöndum hefðu lífeyristekjur verið hæstar á Íslandi árið 2004. En ég benti á, að Stefán fór með rangt mál: Hann deildi með fjölda manna á lífeyrisaldri (31.000) í heildarlífeyrisgreiðslur, ekki með fjölda lífeyrisþega (26.000).

Stefán hélt því fram, að tekjuskipting hefði orðið hér ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. En ég benti á, að hann hafði reiknað tölurnar fyrir Ísland öðru vísi en þær eru reiknaðar fyrir önnur Evrópulönd. Hann hafði reiknað inn í þær söluhagnað af hlutabréfum, en það var ekki gert annars staðar. Þess vegna virtist tekjuskiptingin ójafnari hér en annars staðar. Þegar allt var reiknað á sama hátt, var tekjuskipting síst ójafnari á Íslandi 2004 en annars staðar á Norðurlöndum.

Stefán hélt því fram, eins og menn muna, að skattar hefðu hér verið hækkaðir. En ég benti á, að skattar voru lækkaðir. Hins vegar gerðist það í góðærinu frá 1995, að menn greiddu hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta en áður, vegna þess að þeir færðust upp tekjustigann, ef svo má segja, misstu margir rétt til bóta og keyptu líka meira af vöru, sem bar opinber gjöld. Þetta gerist sjálfkrafa í góðæri, en hið öfuga, þegar að kreppir. Má kalla þetta eðlilega sveiflujöfnun.

Stefán hélt því fram, að fjármagnseigendum og launafólki væri mismunað: Fjármagnseigendur þyrftu aðeins að greiða 10% af tekjum sínum, en launþegar hátt í 40%. En ég benti á, að fjármagnstekjuskattur var ætíð í raun að minnsta kosti 26,6% (vegna þess, að þegar er greiddur tekjuskattur af tekjunum inni í fyrirtæki, áður en arður er greiddur út). Jafnframt greiddu launþegar alltaf minna en 36% af öllum tekjum sínum, því að hluti þeirra var skattfrjáls (skattleysismörkin). Þetta var áróðursbrella, að nefna 10% og 40% í sömu andrá.

Stefán hélt því fram, að skattar hefðu hér verið hækkaðir á laun með því að hækka skattleysismörk ekki til jafns við verðlag. En ég benti á, að Stefán sleppti því að reikna inn í skattleysismörkin, að lífeyrissjóðsgreiðslur og séreignarsparnaður varð skattfrjáls, sem leiddi til hækkunar skattleysismarka. Voru skattleysismörk að þessu virtu mjög nærri því að vera hin sömu á föstu verðlagi, til dæmis árin 1994 og 2005.

Stefán hélt því fram, að fátækt væri hér meiri en annars staðar á Norðurlöndum. Þessu hefur hann raunar haldið fram áratugum saman. En ég benti á, að rannsóknir Evrópusambandsins sýna, að fátækt (í hlutfallslegum skilningi) var hér einhver hin minnsta í Evrópu árið 2004.

Stefán hélt því fram, að góðærið á Íslandi hefði verið kostað með lántökum og þess vegna ekki verið raunverulegt góðæri. En ég benti á, að skuldasöfnun Íslendinga jókst ekki að ráði fyrr en 2004 og eftir það. Góðærið 1995–2004 átti sér eðlilegar skýringar, ekki síst þá, að dautt fjármagn lifnaði við, um leið og það komst í eigu einstaklinga.

Margt fleira mætti nefna, en ég vísa enn í bók mína um málið, þar sem ég reyni að skýra þetta á eins einfaldan og aðgengilegan hátt og ég get.

Áróðursmenn sækja vissulega stundum að staðreyndum, ekki síst þeir, sem telja sig tala í nafni sannleikans, jafnvel Stórasannleika. En má ég frekar biðja um staðreyndir en Stórasannleika?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband