Erum við að missa fótfestuna?

Við Íslendingar höfum öll átt saman sálufélag í ellefu hundruð ár og vel það. Við getum lesið og skilið ljóð Egils og sögur Snorra. Í skóla lærðum við um heimilisböl Brynjólfs biskups og fæðingarstað Jóns forseta. Það er eitthvað dýrmætt og mikið, sem hverfur, ef þessi tengsl rofna.

Getur verið, að við séum að missa fótfestuna, slitna úr sambandi við sögu okkar og bókmenntir? Mér finnst ýmislegt benda til þess. Ég ætla hér að velja miklu nýlegri dæmi en frá Þjóðveldistímanum og síður en svo um garðinn, þar sem hann er lægstur.

Tryggvi Gíslason norrænufræðingur segir í tilvitnanasafninu Orð í tíma töluð, að orðin: „Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta“ — séu ekki finnanleg í Biblíunni, þótt því sé oft haldið fram, og bendir réttilega á stað í Síraksbók, þar sem boðskapurinn er svipaður, þótt orðalag sé annað.

En veit Tryggvi ekki, að Jón Thoroddsen — langafi vinkonu minnar, Helgu Kress — smíðaði þessi orð? Hann lagði Grími meðhjálpara þau í munn í Manni og konu. Þar var Grímur látinn vitna í Salómon konung um þau. Þetta var augljóst stílbragð Jóns, sem kunni vel sín kristin fræði. Það var vitaskuld þáttur í einstaklingseinkennum Gríms meðhjálpara að fara rangt með ritningarstaði.

Þráinn Bertelsson, rithöfundur, alþingismaður og oflátungur, segir í veitingahúsagagnrýni, sem hann hélt úti fyrir Baugsfeðga í Fréttablaðinu, 21. ágúst 2006: „Þegar maður fór að sjá fyrir endann á máltíðinni komu í hug hin frægu orð Íslendings á þorrablóti sem sagði: Það vildi ég að guð gæfi að ég væri kominn heim, hátt­aður, sofn­aður, vaknaður aftur og byrjaður að eta!“

En veit Þráinn ekki, að Jón Thoroddsen smíðaði þessi orð? Hann lagði Þorsteini matgogg þau í munn í Pilti og stúlku. Þar eru þau: „Guð gæfi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta.“

Ef tveir kunnir menningarvitar þekkja íslenskar bókmenntir (og það frá nítjándu öld) ekki betur en þetta, hvað þá um okkur minni spámennina?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband