Baugsmálið í heimsbókmenntunum

Baugsmálið var ekki eitt mál, heldur mörg. Það var ekki aðeins málið, sem Jón Ásgeir Jóhannesson var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir, heldur öll þau mál, sem síðan hafa komist upp og eru nú til meðferðar, svo sem mál slitastjórnar Glitnis í New York og rannsókn sérstaks saksóknara á gjörningum Baugsfeðga og viðskiptafélaga þeirra.

En ekkert er nýtt undir sólinni. Í heimsbókmenntunum hefur iðulega verið minnst á svipuð mál. Í Síðari Samúelsbók (12, 4) í hinni helgu bók segir:

Þá kom gestur til ríka mannsins, og hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða naut­um til að matreiða fyrir ferðamanninn, sem til hans var kominn, heldur tók gimbrarlamb fátæka manns­ins og matbjó það fyrir manninn, sem kominn var til hans.

Baugsfeðgar héldu veislur sínar í Monte Carlo, í skrauthýsunum og einkaþotunum og á lystisnekkjunum, fyrir lánsfé af innstæðum venjulegra, grandalausra Íslendinga. Þeir sóuðu sparifé gömlu konunnar, — þeir slátruðu gimbrarlambi fátæka mannsins.

Franski rithöfundurinn Honoré Balzac skrifar í Père Goriot, sem kom út 1835 (3. k.):

Le secret des grandes fortunes sans cause apparente est un crime oubli, parce qu’ il a été proprement fait. (Á bak við mikil og illskýranleg auðæfi leynist jafnan óupplýstur glæpur og fimlega framinn.)

Þótt Jón Ásgeir hafi þegar hlotið dóm fyrir efnahagsbrot (og var sá dómur ótrúlega vægur miðað við eðli máls), eiga dómarnir áreiðanlega eftir að verða fleiri, og þá segir mér svo hugur um, að orð Balzacs verði að áhrínsorðum.

Sænska skáldið Gustaf Fröding yrkir í ljóðinu „Atlantis“ (1894), sem Sigurður Nordal sneri á íslensku:

Allsnægtir gerðust að oki.

Auðjöfrasveitin með þrælkunarkvöð

rændi alþjóðar auðnu,

át og drakk og var glöð.

Mein fylgdu munúð,

mein eltu nauðir

óhófs og ógæfu tröð.

 

Ég hef ekki séð raunsannari lýsing á ástandinu á Íslandi frá vorinu 2004, þegar Golíat sigraði Davíð, og fram að bankahruninu haustið 2008.

Skammast þeir Íslendingar, sem gæddu sér með Baugsfeðgum á gimbrarlambi fátæka mannsins, sín ekki? Er glæpurinn enn illskýranlegur? Halda Baugspennarnir gömlu — Hallgrímur Helgason, Þorvaldur Gylfason og ýmsir minni spámenn — áfram að syngja auðjöfrasveitinni, sem rændi alþjóðar auðnu, lof?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband