Jóhannes kvartari

husjohannesarbonus.jpgJóhannes Jónsson, sem kenndur er við Bónus (þótt hann eigi ekki eina einustu krónu lengur í því fyrirtæki), skrifar enn eina kvörtunargreinina og nú á Pressuna. Að þessu sinni er kvörtunarefnið, að fyrirtækið Hagar, sem reka Hagkaup og Bónus, sé í Morgunblaðinu sagt gjaldþrota. Það fyrirtæki gangi vel.

Mikla kokhreysti þarf til að skrifa grein sem þessa. Fyrirtæki getur vitanlega gengið vel, ef allar skuldir þess eru færðar annað. Skuldir Haga voru færðar inn í móðurfélag þess, 1998 ehf. Það fyrirtæki er gjaldþrota, og stjórnar Arion banki því. Orðhengilsháttur er að gera greinarmun á þessum tveimur fyrirtækjum.

Hér þarf ekki að rifja upp mörgum orðum, hvað gerst hefur síðustu árin. Baugsfeðgar, Jón Ásgeir og Jóhannes, tæmdu ásamt viðskiptafélögum sínum íslensku bankana, eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Beittu þeir margvíslegum blekkingum til þess, svo sem í skýrslunni er rakið.

Skömmu fyrir hrun stofnuðu þeir feðgar 1998 ehf., en notuðu helminginn af 30 milljarða króna láni frá Kaupþingi, sem veitt var vegna þeirra breytinga, til að kaupa hlutabréf sín í Baugi, sem orðið var verðlaust fyrirtæki þá þegar. Tókst þeim þannig að forða fimmtán milljörðum króna út úr gjaldþrota félagi. Skiptastjórar reyna nú að rifta þeim gjörningi.

Jafnframt lifðu þeir feðgar og hirð þeirra óhófslífi fyrir lánsfé frá íslensku bönkunum. Nægir að minna á lystisnekkju og einkaþotu Jóns Ásgeirs, skrauthýsi hans í Nýju Jórvík og skíðaskála í Frakklandi að ógleymdu setri Jóhannesar „í Bónus“ í Florida, sem fært var yfir á sérfélag skömmu eftir hrun.

Þeir feðgar og hirð þeirra reyndu líka að stjórna allri skoðanamyndun í landinu. Þeir keyptu til fylgis við sig fjölda álitsgjafa, Baugspennana, Hallgrím Helgason, Þorvald Gylfason og fleiri. Þeir blaðamenn, sem sátu ekki og stóðu eins og feðgunum þóknaðist, voru reknir eða hraktir í burtu, og nægir að nefna Bjarna Brynjólfsson, Sigurð Hólm Gunnarsson, Jón Kaldal og Óskar Hrafn Þorvaldsson.

Í stað þess að skrifa kvörtunargreinar í blöð ætti Jóhannes að lesa kvæði Hallgríms Péturssonar sér til sálubótar. Þar segir í „Flærðarsennu“ um menn eins og Jóhannes:

Annars erindi rekur
úlfur, og löngum sannast það;
læst margur loforðsfrekur,
lítt verður úr, þá hert er að.

Enn segir Hallgrímur og nú í sjálfum Passíusálmunum:

Undirrót allra lasta
ágirndin kölluð er.

Má raunar minna á, að Davíð Oddsson vitnaði í þessi orð, þegar hann tók sparifé sitt út úr Kaupþingi haustið 2003 í mótmælaskyni við framferði fjármálafurstanna.

Enn segir Hallgrímur:

Athugagjarn og orðvar sért,
einkum þegar þú reiður ert.
Formæling illan finnur stað,
fást mega dæmin upp á það.

Hefði Jóhannes mátt lesa þetta erindi úr Passíusálmunum, áður en hann settist niður til að skrifa.

(Myndin er af setri Jóhannesar í Florida.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband