Hvers vegna svarar Jón Ásgeir ekki?

jon_sgeir_987359.jpgTilefni Baugsmálsins fræga á sínum tíma var, að samstarfs- eða umboðsmaður Baugsfeðga í Bandaríkjunum, Jón Gerald Sullenberger, taldi Jón Ásgeir Jóhannesson sýna sér og fjölskyldu sinni óvirðingu. Vildi hann gjalda líku líkt og kærði Jón Ásgeir fyrir ýmsa gjörninga (sem Jón Gerald hafði sjálfur komið nærri) til íslensku lögreglunnar, en vann með glæsibrag málið, sem Jón Ásgeir höfðaði gegn honum úti í Bandaríkjunum.

Menn geta deilt um það, hvort Baugsdómurinn, sem féll eftir mörg ár, var of mildur og hvaða áhrif það hafi haft á hegðun auðmannanna, sem hér réðu flestu frá 2004. En tilefni Baugsmálsins var þetta og gat ekki einfaldara og auðskiljanlegra verið. Furðulegt er, hvernig þeir Baugsfeðgar hafa reynt að snúa því upp á Davíð Oddsson og jafnvel Björn Bjarnason (sem var ekki einu sinni dómsmálaráðherra, þegar það hófst).

Fyrir skömmu birti Jón Ásgeir hér á Pressunni mikla grein gegn Agnesi Bragadóttur. Hann er því að minnsta kosti með pennann á lofti þessa dagana. En hvers vegna svarar hann þá ekki nokkrum spurningum, sem Jón Gerald Sullenberger hefur spurt hann opinberlega? Ég skal rifja þær hér upp (teknar orðrétt frá Jóni Gerald):

  1. Arðgreiðslur til þín og fjölskyldu þinnar undanfarin 5 ár úr íslenskum eignarhaldsfélögum nema mörg þúsund milljónum króna – þetta eru raunverulegir peningar sem voru greiddir til þín úr íslenskum bönkum. Skv. seinasta ársreikningi Gaums nam innleystur hagnaður hluthafa Gaums (þ.e. þú og fjölskylda þín) þúsundum milljóna króna. Hvar eru þessir fjármunir í dag?
  2. Arðgreiðslur úr eignarhaldsfélögum eiginkonu þinnar nema einnig mörg þúsund milljónum króna undanfarin ár. Í september 2008 – korteri fyrir hrun – greiðir bara eitt félaga hennar, ISP ehf., henni 300 milljón krónur í arð, skv. opinberum ársreikningi. Hvar eru þessir fjármunir?
  3. Ertu tilbúinn að upplýsa hvaða eignir þú geymir í félögum þínum í Lúxemborg – þau skipta tugum en ég spyr þig bara um þessi til að spara plássið: Purple Holding. Piano Holding.Epping Holding.Gaumur Holding. Er eiginkona þín tilbúin að upplýsa hvaða eignir hún geymir í Edmound Holding, en eins og þú veist flutti hún margvíslegar eignir þangað fyrir hrun, skv. ársreikningum félagsins.
  4. Hvaðan komu 1,5 þúsund milljón krónurnar sem þú lagðir fram árið 2008 til að kaupa fjölmiðlaveldið 365?
  5. Hvaðan komu 1 þúsund milljónirnar sem þú lagðir fram um daginn til að tryggja þér endanlega yfirráð yfir fjölmiðlaveldinu 365?
  6. Hvaðan komu þær mörg þúsund milljónir króna sem þú varst tilbúinn að leggja fram í tilboði þínu til Arion banka vegna Haga?
  7. Hvaðan munu peningarnir koma til að opna 3 nýjar Bónus-búðir í London, sbr. fréttir þess efnis nýlega?
  8. Hvar eru þessar 1 þúsund milljónir sem Pálmi vinur þinn Haraldsson var svo almennilegur að millifæra á einkareikning þinn eins og frægt er og lesa má um í stefnu Glitnis?
  9. Hvar er hagnaður ykkar hjóna af framvirkum hlutabréfasamningum og gjaldmiðlasamningum þar sem þið tókuð stöðu á móti íslensku krónunni sem nefndin minnist á í skýrslu sinni? Ljóst er að hann nemur þúsundum milljóna króna og veikti mjög íslensku krónuna vorið 2008 sem þjóðin er núna að súpa seyðið af.
Ef blaðamenn ná í Jón Ásgeir, þá væri líka fróðlegt að fá svör við þessum spurningum. Ég óska Jóni Ásgeiri alls góðs í hans einkalífi og atvinnurekstri, sem hlýtur að vera mjög þungur um þessar mundir. En hann hefur gert íslensku þjóðinni slíkan grikk, að hann hlýtur að reyna að bæta fyrir það. Og þá er fyrsta skrefið að segja okkur sannleikann, svara til dæmis þessum spurningum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband