Tekjutenging og jafnaðarstefna

Háskólamenn héldu í síðustu viku fundaröð um skýrslu Rannsóknarnefnar Háskólans. Í henni endurtóku sumir þeirra margt það, sem þeir sögðu fyrir hrun, í stað þess að greina skýrsluna og niðurstöður hennar. Einn þeirra er Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor. Í erindi sínu á föstudaginn sagði hann, að afnema þyrfti eða minnka tekjutengingar bóta. Þetta hefur hann margsagt áður, jafnvel þrástagast á, en ég kem ekki auga á neitt samband þessarar hugmyndar og niðurstaðna skýrslunnar.

Hvað sem því líður, er vert að benda á, að slík aðgerð gengur þvert á jafnaðarstefnu. Hvað er tekjutenging bóta? Hún er, að þeir, sem meira hafa, fá minni bætur, jafnvel engar. Þetta tel ég eðlilegt. Bætur frá hinu opinbera eiga aðeins að renna til þeirra, sem þeirra þurfa. Við eigum ekki að bæta kjör ríks ellilífeyrisþega eða auðugra foreldra ungra barna með almannafé. Þetta fólk getur séð um sig sjálft.

Þess í stað eigum við að verja því fé, sem til ráðstöfunar er í bætur og er eðli málsins samkvæmt alltaf takmarkað, til að bæta kjör þeirra, sem eiga undir högg að sækja af einhverjum ástæðum, hafa til dæmis lent milli stafs og hurðar í lífeyrissjóðum eða geta ekki unnið vegna sjúkdóma.

Í stórum dráttum hefur þessi leið verið farin á Íslandi. Þeir, sem fátækastir eru, hafa fengið ríflegri bætur hér en annars staðar á Norðurlöndum, eins og ég sýni í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Til dæmis býr einstæð móðir með börn við miklu rausnarlegri aðstoð á Íslandi en í Svíþjóð, draumríki jafnaðarmanna. Í Svíþjóð eru sömu bætur greiddar með öllum börnum, óháð efnahag og hjúskaparstöðu foreldra.

Lífeyrisþegar hafa líka verið með hærri tekjur að meðaltali á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum (þrátt fyrir fullyrðingar Stefáns Ólafssonar um hið gagnstæða), af því að þeim er mörgum ekki bannað að vinna, þótt þeir séu komnir á lífeyrisaldur (eins og tíðkast víða annars staðar), auk þess sem íslensku lífeyrissjóðirnir voru mjög öflugir og verða vonandi aftur, þegar atvinnulífið hjarnar við.

Hvers vegna vill Stefán Ólafsson afnema eða minnka tekjutengingar bóta? Það er af sömu ástæðu og sænskir jafnaðarmenn vildu, að allir fengju bætur, líka þeir, sem ekki þurftu á þeim að halda. Það er vegna þess, að hann vill meira vald, umfangsmeira ríki. Það á að múta öllum til að styðja velferðarríkið, gera alla að bótaþegum, gera alla háða ríkinu, en ríkisvaldið á síðan að leggja í hendurnar á mönnum eins og honum, sem eru liprir í talandanum, þótt þeir skapi engin raunveruleg verðmæti.

Þegar ég hlusta á Stefán Ólafsson og aðra Samfylkingarmenn á mínum ágæta vinnustað, get ég ekki að því gert,, að mér dettur í hug vísa Davíðs:

Því betur unir fólk sínum fjötrum
sem fleiri klæðast andlegum tötrum,
og allt, sem verður á borðin borið,
skal brennt og malað og klippt og skorið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband