Stefán Ólafsson beitti blekkingum

stefanolafsson_986906.jpgÁ bloggi mínu hér í gær vakti ég athygli á því, að Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor brást illilega trúnaði, á meðan hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hreinn Loftsson hafði fengið hann í kyrrþey vorið 1996 til að gera skoðanakönnun um fylgi nokkurra manna í væntanlegu forsetakjöri. Var þessi könnun strangleynileg, eins og margar kannanir félagsvísindastofnunar voru og eru.

Stefán sagði hins vegar ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðunni úr könnuninni, eins og fram kemur í dagbók Matthíasar Johannessen, sem hann hefur birt á Netinu.

Það var þess vegna furðulegt að sjá Stefán kallaðan til í fyrradag, þegar háskólamenn ræddu um siðferðileg álitamál í framhaldi af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Enn furðulegra var að hlusta á hann tala um, að frjálshyggjumenn hefðu beitt blekkingum í umræðum um stjórnmál.

Það var Stefán Ólafsson sjálfur, sem beitti blekkingum í umræðum um skatta og velferð fyrir kosningarnar 2003 og 2007 (en Stefán reyndi í bæði skiptin að kasta kosningasprengjum inn á vígvöll stjórnmálanna og kallaði þessar sprengjur, fyrst um fátækt, síðan um ójafna tekjuskiptingu, niðurstöður rannsókna).

Ég rek ýmis dæmi um brellur, missagnir og yfirsjónir Stefáns í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Hér skal ég stuttlega fara yfir eitt skýrasta dæmið.

Í skýrslu norrænu tölfræðinefndarinnar, Nososco, frá 2006 kom fram, að á Norðurlöndum væru lífeyristekjur á mann að meðaltali hæstar á Íslandi. Þetta hentaði Stefáni ekki, enda hafði hann haldið því fram, að kjör þeirra væru lök á Íslandi.

Hann birti grein í Morgunblaðinu 20. mars 2007, þar sem hann andmælti harðlega þessari niðurstöðu. Benti hann á, að í sömu skýrslu Nososco væri á öðrum stað sagt, að lífeyrisgreiðslur á hvern lífeyrisþega væru á Norðurlöndum næstlægstar á Íslandi.

En þetta var rangt hjá Stefáni. Síðari talan, sem Stefán vitnaði í, var tala um lífeyrisgreiðslur á hvern mann á lífeyrisaldri á Norðurlöndum, ekki um lífeyrisgreiðslur á hvern lífeyrisþega.

Árið, sem talan var  um, 2004, voru menn á lífeyrisaldri á Íslandi 31 þúsund, en lífeyrisþegar 26 þúsund. Ástæðan er sú, að vinnumarkaðurinn fyrir fólk, sem er að reskjast, er sveigjanlegri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Það fær að vinna lengur, ef það vill (sem betur fer). Fimm þúsund manns á lífeyrisaldri hagnýttu sér það árið 2004 og tóku því ekki lífeyri.

Nú sjá menn brellu Stefáns Ólafssonar: Hann deildi með 31 þúsundi í tölu (heildarlífeyrisgreiðslur), sem hann átti að deila með 26 þúsundum í. Auðvitað fékk hann lægri tölu á þennan hátt.

Ég benti á þetta opinberlega, en Stefán hefur enn ekki leiðrétt þetta. Hið rétta var það, sem kom fram í skýrslu norrænu tölfræðinefndarinnar, að árið 2004 voru lífeyristekjur á mann á Norðurlöndum að meðaltali hæstar á Íslandi.

Ég læt lesandanum eftir að meta, hvort þetta var missögn, yfirsjón — eða fölsun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband