Annar töfluhagfræðingur: Gauti B. Eggertsson

Ég hef minnst hér á töfluhagfræðina, sem hinn stórvitri ensk-bandaríski hagfræðingur Ronald Coase gagnrýnir: Hagfræðingur stendur við töflu, dregur upp línurit, sýnir þar hagkvæmustu stöðu mála og breytir með einu striki yfir töfluna ástandinu í það horf. Hann gleymir fólkinu, forsögu þess og reynslu, skuldbindingum, hagsmunum og tilfinningum.

Eitt besta dæmið um töfluhagfræði er krafa nokkurra íslenskra hagfræðinga um auðlindaskatt, sem þeir kalla að vísu í fegrunar skyni ýmist auðlindagjald, fyrningarleið eða veiðigjald, af því að þeir vita, að orðið „skattur“ hefur ekki á sér geðfelldan blæ.

gauti_eggertsson_978046.jpgHér hef ég gagnrýnt Jón Steinsson fyrir töfluhagfræði, en í dag sé ég, að Gauti Bergþóruson Eggertsson hefur tekið sér stöðu með honum. Gauti gefur á bloggi sínu sjávarútvegsráðherra falleinkunn fyrir að bjóða ekki upp makrílkvótann, heldur úthluta honum eftir veiðireynslu.

Hér skal ég í örstuttu máli skýra, hvers vegna þessir ungu hagfræðingar hafa rangt fyrir sér hagfræðilega. (Við skulum sleppa réttlætinu í bili.) Um rækilegri rök vísa ég í nýútkomna bók mína, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, þar sem er heill kafli um þetta mál.

Ástæðan til þess, að þeir Jón og Gauti hafa rangt fyrir sér hagfræðilega, er, að auðlindaskatturinn, sem þeir krefjast, er Pareto-óhagkvæmur. Með Pareto-hagkvæmum breytingum er átt við breytingar, sem eru þess eðlis, að hagur allra batnar eða að minnsta kosti sumra, án þess að hagur neins versni.

Ókeypis úthlutun framseljanlegs og varanlegs kvóta eftir veiðireynslu, eins og varð fyrir valinu á Íslandi, var Pareto-hagkvæm:

  • Þeir útgerðarmenn, sem héldu kvótum sínum og keyptu sér viðbótarkvóta, græddu.
  • Þeir útgerðarmenn, sem seldu kvóta sína og héldu í land, græddu.
  • Almenningur græddi óbeint á blómlegri atvinnuvegi og meira fjármagni.
  • Ríkið græddi talsvert á bættri afkomu útgerðarfyrirtækja.

Auðlindaskattur hefði hins vegar verið Pareto-óhagkvæmur:

  • Þeir útgerðarmenn, sem hefðu getað greitt skattinn (keypt kvóta af ríkinu), hefðu hvorki grætt né töpuðu; þeir hefðu greitt til ríkisins sömu upphæðir og þeir höfðu áður eytt í fjárfestingar.
  • Þeir útgerðarmenn, sem hefðu ekki getað greitt skattinn og þess vegna orðið að hætta veiðum, hefðu tapað. Fjárfestingar þeirra hefðu orðið einskis virði með einu pennastriki.
  • Ríkið hefði grætt mjög mikið, að minnsta kosti til skamms tíma, á hinum nýja tekjustofni.
  • Deila má um, hvort almenningur hefði grætt mikið eða lítið eða jafnvel tapað, því að það er ekki nauðsynlega almenningi í hag, að atvinnustjórnmálamenn þeir, sem fara með ríkisvaldið og næmastir eru fyrir kröfum háværra, fámennra hagsmunahópa, hreppi aukna tekjustofna. Viljum við auka vald þeirra?

Hér er kominn ljóslifandi gallinn á töfluhagfræði auðlindaskattsmanna. Þeir tóku ekki tillit til forsögu málsins, veiðireynslunnar, þeirra hagsmuna, sem myndast höfðu í rás tímans. Eflaust skýrir þetta, hvers vegna endurgjaldslaus úthlutun kvóta eftir veiðireynslu varð fyrir valinu.

Við þessi almennu hagfræðilegu rök gegn auðlindaskatti í sjávarútvegi má bæta því sjónarmiði í hinu einstaka dæmi af makrílstofninum, að veiðireynsla hafði einmitt myndast síðustu þrjú ár. Útgerðarmenn höfðu haft forgöngu um að hefja veiðar úr stofninum.

Þetta er einmitt einn gallinn enn á kenningunni um sérstakan skatt á auðlindir (þótt hann geti ef til vill einhvers staðar átt við, til dæmis ef skyndilega finnst gull í Vatnajökli eða olía undan ströndum): Með slíkum auðlindaskatti dregur úr hvatningunni til nýsköpunar — til leitarinnar að nýjum auðlindum. Menn ryðja ekki brautina, nema þeir njóti þess sjálfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband