Jón Steinsson við sama heygarðshornið

Einn virtasti — og vitrasti – hagfræðingur tuttugustu aldar, Ronald Coase, sem ég hafði raunar þá ánægju að hitta eitt sinn á alþjóðlegri ráðstefnu, varaði við „töfluhagfræði“. Hún er í því fólgin, að hagfræðingur stendur við töflu og dregur upp línurit. Þar sýnir hann og sannar, hvað sé hagkvæmt, og færir síðan ástandið í það horf með einu striki. En þetta er oft óraunhæft. Úti í veruleikanum gegnir enginn hlutverki þessa hagfræðings  við töfluna, síst af öllu ríkið, sem er vettvangur flókinna og lítt fyrirsjáanlegra átaka og málamiðlana, ekki skynsamur eða upplýstur gerandi.

Coase brýnir hið sama fyrir okkur og Adam Smith tvö hundruð árum áður, að í hagkerfinu eru að verki menn af holdi og blóði, — menn með ólíka hagsmuni og misjafnar og oft mjög ófullkomnar upplýsingar. Galdurinn er að fella sérhagsmuni þeirra og almannahag saman. Þetta tekst oft, en ekki alltaf, úti á hinum frjálsa markaði. Menn, sem ætluðu sér aðeins að græða, gera öðrum gagn óviljandi með því að bjóða fram betri eða ódýrari vöru og þjónustu en keppinautar þeirra.

jonsteinsson_977473.jpgÉg rakst í dag á nýtt dæmi um töfluhagfræði. Hinn ungi og hrokafulli hagfræðingur Jón Steinsson skrifar á Pressunni: „Auðlindagjöld eru hagkvæmasta tekjulindin sem ríkið á völ á.

Þetta er gömul hugmynd, sem Karl Marx og Henry George trúðu báðir á. Georgisminn, sem naut talsverðs fylgis á Íslandi á öndverðri tuttugustu öld, var í rauninni krafa um auðlindaskatt (sem Jón kýs að kalla auðlindagjald í fegrunar skyni) á jarðnæði. Algengast var á fyrri tíð að kalla slíkan skatt „landskatt“, og var Jónas frá Hriflu um skeið talsmaður hans, en tímaritið Réttur var upphaflega stofnað til að berjast fyrir slíkum skatti, þótt síðar lenti það í höndum marxista. George taldi, að menn ættu ekki skilið þá „rentu“, eins og það er oftast nefnt, sem stafaði af því, að ein jörð seldist vegna legu sinnar eða annarra kosta á hærra verði en önnur. Gera ætti þessa rentu upptæka með landskattinum, sem hefði þann kost, að hann raskaði ekki verðmætasköpun einstaklinga.

Margvísleg rök má leiða gegn georgisma (þótt ég sé ekki þeirrar skoðunar, að hann sé alls staðar fráleitur): 1) Erfitt er að greina á milli verðhækkunar lands af völdum náttúrunnar annars vegar og mannanna hins vegar. 2) Menn hafa þegar greitt fullt verð fyrir jarðir sínar, svo að ósanngjarnt er að leggja á þá aukaskatt vegna sérstakra landkosta. 3) Ef skattleggja á allt það, sem menn eiga ekki skilið og hafa hlotið fyrirhafnarlaust, þá verður líka að skattleggja sérstaka hæfileika, til dæmis námsgáfur og líkamsfegurð.

Sum þessara raka eiga við um auðlindaskatt í íslenskum sjávarútvegi. Til dæmis hafa áreiðanlega rösk 90% kvótanna skipt um hendur, frá því að kvótakerfi var tekið upp í botnfiskveiðum í ársbyrjun 1984 (en áður hafði það verið notað í nokkur ár í veiðum á uppsjávarfiski). Útgerðarmenn hafa því greitt fullt verð fyrir kvóta sína. Og hvers vegna eiga góðir námsmenn eins og Jón Steinsson að fá að hreiðra um sig í þægilegum stöðum (í krafti hæfileika, sem náttúran hefur úthlutað þeim), á meðan aðrir  telja aðeins sultardropana úr nefinu?

En fleiri rök eiga hér við, eins og ég bendi á í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Hér get ég þeirra aðeins stuttlega. 1) Arðurinn af fiskistofnunum er líklegri til að gagnast þjóðinni vel í höndum útgerðarmanna en atvinnustjórnmálamanna. 2) Útgerðarmenn nýta auðlindina á annan og betri hátt, ef þeir — en ekki aðeins ríkið — hafa beinan hag af því, að hún skili hámarksarði til langs tíma litið. 3) Ókeypis úthlutun kvóta í byrjun var Pareto-hagkvæm (enginn tapaði á henni) ólíkt uppboði á kvótum eða auðlindaskatti. Ef minnka á sókn í fiskistofna niður í það, sem hagkvæmast getur talist, þá verður að gera það í samstarfi við þá, sem hagsmuni hafa haft af slíkri sókn.

Galdurinn við kvótakerfið er, að sérhagsmunir og almannahagur falla þar saman. Auðlindin skilar mestum arði, ef hún er í höndum útgerðarmanna, ekki atvinnustjórnmálamanna.

Sú kenning Jóns Steinssonar er því að minnsta kosti hæpin, ef hún er ekki alröng, að „auðlindagjöld“ séu „hagkvæmasta tekjulindin sem ríkið á völ á“. Hún er dæmi um töfluhagfræði: Jón Steinsson gleymir því, að inni á Alþingi og úti á Austurvelli — og raunar líka úti á rúmsjó — eru að verki menn af holdi og blóði, en ekki aðeins tölur í reikningsdæmi eða deplar í línuriti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband