Fyrningarleið = Auðlindaskattur

Hugmyndin um „fyrningarleið“ í sjávarútvegi er ekkert annað en gamla krafan um auðlindaskatt. Sú krafa mæltist ekki vel fyrir á sínum tíma, því að Íslendingar eru flestir ekki hrifnir af sköttum, svo að fylgismenn hennar ákváðu að kalla hana „fyrningarleið“, eins og Eiríkur rauði ákvað að skíra hinn ísi klædda granna í vestri „Grænland“ til að laða fólk þangað.

Tvenn helstu rökin fyrir auðlindaskatti í sjávarútvegi eru, að slíkur skattur sé réttlátur, þar eð þjóðin eigi að njóta arðsins af auðlindinni, en ekki útgerðarmenn, og að hann sé hagkvæmur, þar eð hann trufli ekki verðmætasköpun ólíkt öðrum sköttum.

johannaogsteingrimur_975975.jpgFyrri rökin eru ógild af einni einfaldri ástæðu. Það er ekki þjóðin, sem nýtur arðsins af auðlindinni, ef ríkið gerir hana að nýjum tekjustofni (til dæmis með því að selja þá kvóta, sem eiga að fyrnast, eins og ætlunin er). Það eru stjórnmálamennirnir, sem njóta hennar. Þeir fá nýjan tekjustofn til að kaupa sér atkvæði. Gleymum því aldrei, að ríkið er ekki við: Það eru þeir.

Sannleikurinn er sá, eins og reynsla margra annarra þjóða sýnir, að þjóðin nýtur best arðsins af auðlindinni með því, að útgerðarmennirnir fái að halda kvótunum og versla með þá sín í milli, því að þá verður til blómlegur sjávarútvegur, sem skapar fjármagn og skilar vænum skatttekjum.

Seinni rökin eru ógild af mörgum ástæðum. Það er rangt, þótt sumir hagfræðingar (til dæmis Jón Steinsson) hafi vissulega haldið því fram, að auðlindaskattar trufli ekki verðmætasköpun. Fer ég rækilega yfir það mál í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.

Hér ætla ég aðeins að benda á tvö einföld atriði. 1) Hvort skyldi arðurinn af auðlindinni vaxa hraðar til langs tíma litið í höndum 100–200 einstaklinga úti í atvinnulífinu eða 63 atvinnustjórnmálamanna á þingi? 2) Ef útvegsmenn fá ekki að njóta arðsins af auðlindinni, þá er numinn burt sá hagur, sem þeir hafa af því, að hún beri sem mestan ávöxt til sem lengst tíma. (Hefur prófessor Ronald Johnson gert skilmerkilega grein fyrir þessu sjónarmiði í fræðilegum ritgerðum.)

Ein meginástæðan til þess, að kvótakerfið íslenska hefur gengið betur en önnur kerfi, er, að hér hefur verið gott samstarf stjórnvalda, almennings og útvegsmanna. Einkahagur útvegsmanna hefur farið saman við almannahag.

Eins og skáldið kvað:

Náttúran er vor milda móðir,
sem dýrar gjafir gaf oss.
Ríkið er vor Stóri bróðir,
sem tók þær allar af oss.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband