Grískur harmleikur

Sú hugsun sækir sífellt fastar að mér, að íslenska bankahruninu megi helst líkja við grískan harmleik, þar sem engu varð um þokað og allir voru leiksoppar örlaganna þrátt fyrir góðan ásetning flestra. Hvað sem því líður, má sjá, að tveir aðsópsmiklir þátttakendur í þjóðlífinu misserin fyrir hrun áttu sér hliðstæður í fornum, grískum sögum.

davi_oddsson.jpgDavíð Oddsson var — eins og Guðmundur Andri Thorsson benti raunar einu sinni á — Kassandra, sem var dæmd til að sjá allt fyrir, en enginn trúði. Árin 2003–2004 reyndi hann að veita auðjöfrunum viðnám, en fjölmiðlar (flestir í eigu auðjöfranna), álitsgjafar (sumir á launum hjá auðjöfrunum), stjórnmálamenn (sumir á vænum styrkjum frá auðjöfrunum) og jafnvel dómarar lögðust á hina sveifina og réðu úrslitum. Og árin 2005–2009, á meðan Davíð var seðlabankastjóri, varaði hann hvað eftir annað við útþenslu bankakerfisins og óeðlilegum ítökum auðjöfranna, þótt hann yrði stöðu sinnar vegna að tala varlegar opinberlega en á einkafundum, en þá átti hann til dæmis sex um yfirvofandi hættur með Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur árið fyrir hrun.

ingibjorgsolrungisladottir.jpgIngibjörg Sólrún Gísladóttir var vitaskuld Pandóra. Hún sagði raunar sjálf hlæjandi í Kastljósi Sjónvarpsins 30. desember 2002: „Nú verð ég að fara að opna mitt pólitíska Pandórubox.“ Líklega kunni hún ekki söguna um Pandóru, sem opnaði af forvitni kistu eina (ekki box, eins og Ingibjörg Sólrún sagði á vondri íslensku) þrátt fyrir bann við því. Út úr kistunni stukku margvíslegar plágur, sem herjuðu síðan á mannkyn. Þetta gerðist svo sannarlega á Íslandi. Ingibjörg Sólrún flutti sína Borgarnesræðu vorið 2003 og dylgjaði um, að lögreglurannsókn á auðjöfrunum væri af óeðlilegum hvötum runnin. Þegar hún settist síðan í ríkisstjórn, daufheyrðist hún við viðvörunum Davíðs og átti það áhugamál eitt eftir hrun að reyna að hrekja hann úr stöðu seðlabankastjóra.

Ein versta plágan, sem stökk upp úr kistu hinnar íslensku Pandóru, var skefjalaus auðmannadýrkun. Baugsfeðgar og aðrir auðmenn gera mikið gagn (eins og ég þreyttist seint á að segja á fyrri tíð), þegar þeir keppa sín í milli um að fullnægja þörfum almennings vel og ódýrt. En góðir þjónar geta verið vondir húsbændur. Þótt kapítalisminn þurfi á röskum kapítalistum að halda, verður að halda þeim — eins og stjórnmálamönnum — í skefjum.

Einu má þó ekki gleyma. Pandóra Sólrún opnaði í fákænsku sinni kistuna, og upp stukku plágurnar, ruku í allar áttir og herjuðu á fólk. En samkvæmt grísku sögunni varð vonin eftir á kistubotninum. Er eftir það sagt, að ekki sé öll von úti.

Íslendingar geta vissulega vonast eftir betri tíð. Þjóðin er vel menntuð og snögg að nýta sér ný tækifæri, og þótt Ísland sé ekki frjósamt land eða gjöfult, nægja auðlindir þess ríflega þeim þrjú hundruð þúsundum, sem það byggja. Ekki er öll von úti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband