Frelsi og lýðræði eru mikilvæg verðmæti

Stundum er sagt, að frelsið sé eins og andrúmsloftið: Við verðum þess ekki vör, fyrr en við erum svipt því. Við göngum að því vísu. Mér datt þetta í hug, þegar ég las tvær fréttir í dag. Önnur var um það, að Chavez, lýðræðislega kjörinn einræðisherra Venesúela, hefði hneppt andstæðing sinn, Guillermo Zuloaga, í fangelsi, eftir að sá leyfði sér að gagnrýna hann í sjónvarpsviðtali. Hin var, að kommúnistastjórnin í Kína, sem hefur ekkert lýðræðislegt umboð (ólíkt Chavez), ætlaði að taka upp ritskoðun á google, eftir að netmiðillinn sjálfur hætti henni.

Við Íslendingar njótum sem betur fer frelsis. Fyrir okkur eru þetta fréttir úr fjarlægum löndum (þótt svo vilji raunar til, að ég kannast við Guillermo Zuloaga og er góður vinur fjölskyldu hans). Og við búum líka við rótgróna lýðræðishefð. Þessu megum við ekki gleyma þrátt fyrir hremmingar síðustu ára. Lýðræði er að vísu ekki hugsjón í sama skilningi og frelsið, því að skoðun verður ekki betri við það, að fleiri hafi hana. En það er engu að síður mikilvægt, því að betra er að telja nef en höggva hálsa. Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sýndu lýðræðinu lítilsvirðingu á dögunum með því að fara ekki á kjörstað og nota atkvæðisrétt sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband