Reikningsskekkja Stefáns Ólafssonar

imagehandler_970721.jpgÍ nýútkominni bók minni, Áhrifum skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, bendi ég á reikningsskekkju í áróðri Stefáns Ólafssonar um tekjuskiptingu, eins og ég gat um hér í bloggi mínu 14. mars. Í bókinni bendi ég líka á aðra reikningsskekkju í áróðri Stefáns, nú um skattleysismörk, og hefur sú skekkja farið enn hljóðar.

Stefán hélt því fram í fjölda greina og fyrirlestra árin 2006 og 2007 (í aðdraganda þingkosninga), að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefði beitt „brellum“, eins og hann orðaði það, þegar hún hreykti sér af að hafa lækkað skatta. Hún hefði ekki hækkað skattleysismörk með verðlagi, svo að í raun hefði skattstofninn fyrir tekjuskatt einstaklinga breikkað, menn greitt skatt af miklu stærri hluta tekna sinna en ella. Þannig hefði stjórnin hækkað skatta á laun.

Einkennilegt var í fyrsta lagi, að Stefán skyldi kvarta undan of lágum skattleysismörkum á Íslandi. Þau voru miklu hærri hér en í grannlöndunum. Til dæmis voru þau árið 2006 — eins og ég bendi á í bók minni — 948.647 kr. á Íslandi, 450.980 kr. í Danmörku, 110.249 kr. í Svíþjóð og 644.266 kr. á Bretlandi.

Í öðru lagi reiknaði Stefán ekki inn í tölurnar um skattleysismörk skattfrelsi lífeyrisiðgjalda og séreignarsparnaðar í lífeyrissjóði, sem komið var á í tveimur áföngum, 1995 og 1999. Þetta stuðlaði að hækkun raunverulegra skattleysismarka, eins og dr. Sveinn Agnarsson hagfræðingur hefur bent á og reiknað út.

Í bók minni birti ég töflu um þróun raunverulegra skattleysismarka á Íslandi á sambærilegu verðlagi. Þar sést, að skattleysismörk voru raunar lækkuð mest í fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar 1989–1990. Stefán minntist hvergi á það.

Einnig kemur í ljós, að raunveruleg skattleysismörk lækkuðu óverulega tímabilið 1995–2004, sem Stefán miðaði oftast við í gagnrýni sinni. Þessi mörk voru 1.124.600 kr. árið 1995 (á verðlagi ársins 2007) og 1.084.500 kr. (á sama verðlagi) árið 2004.

Þetta er 3.300 kr. lækkun raunverulegra skattleysismarka á mánuði frá 1995 til 2004. Það er allt og sumt! Augljóst er, að þetta hefur ekki ráðið neinum úrslitum. Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga hefðu í mesta lagi orðið hátt í einum milljarði króna hærri, hefðu skattleysismörk verið nákvæmlega hin sömu að raungildi 2004 og þau voru 1995.

Ef miðað var við tímabilið 1995–2007, þá höfðu skattleysismörk raunar hækkað, í 1.174.000 kr. árið 2007 (á verðlagi ársins 2007).

Í gagnrýni sinni nefndi Stefán Ólafsson hins vegar miklu hærri tölur, því að honum láðist að reikna með skattfrelsi lífeyrisiðgjalda og séreignarsparnaðar í lífeyrissjóði.

(Og jafnvel þótt Stefán hefði reiknað þróun skattleysismarkanna 1995–2004 út rétt, hefði lækkun þeirra ekki skýrt nema að mjög litlu leyti auknar skatttekjur ríkisins.)

En sömu fjölmiðlarnir og jafnan fluttu flennifréttir af nýjustu niðurstöðum Stefáns Ólafssonar um aukinn ójöfnuð á Íslandi og „skattahækkunarbrellur“ ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, munu eflaust þegja um þessa ábendingu úr bók minni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband