Síbylja Stefáns Ólafssonar

kapa_973219.jpgEin síbylja Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði, er, að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem hér sat 1991–2004, hafi ívilnað efnafólki á kostnað láglaunafólks, ekki síst með breytingum á skattareglum. Ég skoða þennan áróður hans og greini í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.

Stefán sagði til dæmis í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu 2007 (en það er aðgengilegt á Netinu), að kaupmáttur hátekjufólks á Íslandi hefði tímabilið 1995–2004 vaxið hraðar en lágtekjufólks, og ylli skattastefna stjórnvalda því ekki síður en markaðsöflin, „því að skattálagning á fjármagnstekjur var færð í 10% á meðan greiða þurfti af launatekjum yfir skattleysismörkum hátt í 40%.“

Takið eftir, að Stefán stillti hér saman tveimur tölum, 10% og (hátt í) 40%, eins og þær væru sambærilegar. Hverjum finnst eðlilegt eða réttlátt, að fjármagnseigandi greiði 10% af tekjum sínum og venjulegur launþegi (hátt í) 40%?

En þessar tölur eru ekki sambærilegar. Þær eru hvor síns eðlis. Á þessu tímabili greiddu fjármagnseigendur í raun talsvert meira en 10%, ef þeir áttu til dæmis og ráku fyrirtæki, eins og algengast var. Fyrst greiddu þeir 18% tekjuskatt af hreinum hagnaði fyrirtækisins. Þá stóðu eftir 82% af hagnaðinum. Af honum greiddu þeir 10% tekjuskatt, með öðrum orðum 8,2% af hreinum hagnaði fyrirtækisins. Þeir greiddu því samtals 26,2% skatt, 18+8,2. (Þetta viðurkenndi jafnvel skoðanabróðir Stefáns, Indriði H. Þorláksson, í annarri grein í sama tímariti.)

Þetta er ekki allt. Menn, sem starfa í eigin fyrirtækjum og taka þaðan út arð, verða einnig að reikna sér endurgjald og greiða af því tekjuskatt. Til dæmis bar háskólamenntuðum viðskiptafræðingi að reikna sér 517 þúsund kr. mánaðartekjur árið 2006 samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda. Sá maður greiddi því í raun skatt af tekjum sínum í þremur þrepum: 0% tekjuskatt af fyrstu 90 þúsund krónunum, 36% tekjuskatt af næstu 427 þúsund krónunum og 26,2 fjármagnstekjuskatt af arðinum, sem hann greiddi sér síðan út.

Ef arður fyrirtækisins fyrir skatt var ein milljón króna, þá greiddi hann um 28% í þessar þrjár tegundir skatta.

En það hljómar óneitanlega betur í áróðri, sem ætlaður er óánægðu Samfylkingarfólki, að nefna töluna 10% en 28% um skattgreiðslur fjármagnseigenda.

Stefán Ólafsson lét þess líka ógetið, þegar hann stillti saman tölum sínum, 10% og (hátt í) 40%, að seinni talan, um skattgreiðslur launþega, er í raun alltaf lægri. Ef tekjuskattur ofan skattleysismarka var 36% og skattleysismörk voru 90 þúsund krónur á mánuði, þá greiddi launþegi með 90 þúsund krónur 0% tekjuskatt. Maður með 180 þúsund krónur greiddi 18% tekjuskatt (0% af fyrstu 90 þúsundunum og 36% af næstu 90 þúsundunum). Maður með 270 þúsund krónur greiddi um 26% tekjuskatt (0% af fyrstu 90 þúsundunum og 36% af næstu 180 þúsundunum).

Það var með öðrum orðum ekki fyrr en launþeginn var kominn með laun yfir 300 þúsund krónur, sem hann nálgaðist skatthlutfall fjármagnseigandans.

Allt þetta er einfalt að reikna. Hvers vegna gerði Stefán Ólafsson það ekki, heldur stillti upp töllunum 10% og (hátt í) 40%? Af því að hann vildi sýna fram á óréttlæti, þar sem ekkert óréttlæti var.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband