Viðtal í European Voice

Rætt er um Icesave-málið við okkur Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra í nýjasta hefti European Voice 11. mars 2010, sem aðgengilegt er á Netinu. Tilefnið var þjóðaratkvæðagreiðslan á Íslandi 6. mars, þar sem 98% þeirra, sem afstöðu tóku, greiddu atkvæði gegn samningnum, sem Steingrímur hafði gert við Breta og Hollendinga um stórkostlegar greiðslur til þeirra vegna Icesave-reikninga Landsbankans erlendis.

Ég skal játa, að ég brást hinn versti við, þegar blaðamaður European Voice, Toby Vogel, spurði, hvort Íslendingar ættu ekki að greiða skuldir sínar eins og aðrir. Ég sagði, að í Icesave-málinu væri ekki um að ræða neina skuld Íslendinga. Bretar og Hollendingar hefðu tekið það upp hjá sjálfum sér í miðju bankahruninu að greiða eigendum Icesave-reikninganna í löndum sínum út lágmarkstryggingu.

Þeir gætu síðan ekki innheimt þessa upphæð sem skuld íslenska ríkisins við þá. Engin ríkisábyrgð væri á hinum íslenska Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem stofnaður hefði verið og rekinn eftir lögum, reglum og alþjóðasamningum.

Ég benti á, að eignir Landsbankans stæðu á móti þessari skuld (sem væri auðvitað skuld íslenska Tryggingarsjóðsins við Breta og Hollendinga). Nærtækasta verkefnið væri að gera eins mikið úr þeim eignum og unnt væri. Ef eignir Landsbankans erlendis nægja fyrir þessari kröfu, eins og fyrrverandi forsvarsmenn hans hafa jafnan haldið fram, þá er málið væntanlega úr sögunni. Blaðamaðurinn gerði því engin skil, sem ég minnti á, að Bretar felldu með harkalegum aðgerðum í upphafi bankakreppunnar íslensku eignir bankans stórlega í verði og ættu sjálfir að bera það tjón.

399px-steingrimur_j_sigfusson_971559.jpgSteingrímur J. Sigfússon sagði hins vegar European Voice, að íslenska ríkið stæði við allar skuldbindingar sínar. Einhverra hluta vegna hefur blaðamaðurinn það eftir Steingrími, að Íslendingar dragi ekki í efa greiðsluskyldu sína í Icesave-málinu, þótt í upphafi Icesave-samningsins, sem þó var felldur, segi skýrum stöfum, að samningurinn feli ekki í sér viðurkenningu á greiðsluskyldunni.

Mér er það hulin ráðgáta, hvers vegna forystumenn vinstristjórnarinnar nota ekki hvert tækifæri til að kynna erlendum fjölmiðlum aðalatriði málsins:

  • Þetta er ekki skuld Íslendinga við Breta og Hollendinga, heldur hugsanlega skuld Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við þá.
  • Engin bakábyrgð íslenska ríkisins er á þessum íslenska Tryggingarsjóði (fremur en bakábyrgð norska ríkisins á hinum norska Tryggingarsjóði, sem lýtur nákvæmlega sömu alþjóðlegu reglum, eins og forstöðumaður hans bendir á).
  • Ráðamenn í Evrópu, þar á meðal Jean-Claude Trichet og Wouter Bos, hafa viðurkennt, að reglur Evrópska efnahagssvæðisins um innstæðutryggingar voru ekki miðaðar við allsherjarbankahrun í einu landi.
  • Bretar ollu miklu um hið gífurlega tjón íslensku bankanna, meðal annars með því að setja Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök við hlið Talíbana og Al-Kaída.
  • Bretar og Hollendingar hafa notað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ríki Norðurlanda í viðleitni sinni til að neyða þessari skuld upp á Íslendinga og innheimta hana.
  • Stórþjóðir eru hér að níðast á smáþjóð. Upphæðirnar, sem um er að ræða, skipta Breta og Hollendinga litlu máli, en ráða úrslitum fyrir afkomu Íslendinga.

Það er síðan annað mál, hvað um kann að semjast, enda verður stundum að gera fleira en gott þykir. Menn eiga þó ekki að semja við sjálfa sig fyrirfram, eins og Steingrímur virðist hafa gert í Icesave-málinu, áður en þeir setjast að samningaborði með öðrum.

Undanlátssemi getur verið ill nauðsyn. En hún er aldrei dygð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband