Jóhanna snýr baki við Steingrími

imagehandler_958150.jpgUmmæli Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósi Sjónvarpsins þriðjudagskvöldið 2. febrúar 2010 um, að skynsamlegt hefði verið eftir á að hyggja að fá vana samningamenn í íslensku nefndina, sem samdi um Icesave-málið við Breta og  Hollendinga, eru merkileg. Hér er forsætisráðherrann að vega að fjármálaráðherra sínum, Steingrími J. Sigfússyni, sem lagði allt undir í Icesave-málinu. Jóhanna kemur nú fram af sama ódrengskap við Steingrím og hún gerði við gamlan samstarfsmann sinn, Davíð Oddsson, í upphafi setu sinnar í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu.

Ummæli hennar eru þó efnislega rétt. Þeir Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson réðu ekki við verkefni sitt. Þeir voru eins og margir aðrir Íslendingar svo beygðir andlega eftir bankahrunið, að þeir gátu ekki varið hagsmuni Íslendinga af nægilegri festu, auk þess sem hvorugur þeirra hafði til að bera nauðsynlega þekkingu og reynslu. Umboð þeirra var líka óskýrt og hæpið. Af einhverjum ástæðum tók ríkisstjórnin illa allri hjálp, sem hún gat fengið í þessu mikilvæga máli, eins og þrjú dæmi sýna.

  • Þegar Eva Joly talaði skörulega máli Íslendinga erlendis, fann Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu í forsætisráðuneytinu, sérstaklega að því.
  • Þeir Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, sem bentu með glöggum rökum á, að hvergi sér í lögum eða alþjóðasamningum stað einhverrar ábyrgðar íslenska ríkisins á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, töluðu fyrir daufum eyrum stjórnvalda.
  • Ekki var tekið neitt tillit til ábendinga Sigurðar Kára Kristjánssonar um það, að jafnt bankastjóri Evrópska seðlabankans og fjármálaráðherra Hollands hefðu viðurkennt opinberlega, að evrópsk lög og reglur um innstæðutryggingar ættu ekki við um bankahrun.

Nú talar Steingrímur J. Sigfússon í gátum um nýjar upplýsingar, sem muni sýna hina erfiðu vígstöðu Íslendinga í samningunum um Icesave-málið. Er hann að segja, að þingmenn hafi afgreitt málið með ónógar upplýsingar?

Hverjar gætu hinar nýju upplýsingar verið? Hótanir Breta og Hollendinga? Auðvitað hóta samningamenn þessara þjóða okkur, en svigrúm þeirra til að standa við slíkar hótanir er takmarkað. Yfirlýsingar íslenskra ráðamanna í aðdraganda og upphafi bankahrunsins? Þær binda ekki hendur okkar á sama hátt og lög og alþjóðasamningar gera. Skýrslur sérfræðinga um ábyrgð Íslendinga? Þeir sérfræðingar, sem skoðað hafa málið, til dæmis lagaprófessorarnir Stefán Már Stefánsson og Sigurður Líndal, telja ábyrgð ríkisins á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ekki eiga sér neina lagastoð. Glannaskapur bankamanna? Hann skuldbindur ekki íslenska skattgreiðendur.

Því má ekki heldur gleyma, að Íslendingar eru fullvalda þjóð, sem getur ákveðið einhliða, hvað hún gerir, sé hún sannfærð um, að lífshagsmunir hennar séu í húfi, eins og hún gerði í þorskastríðunum fjórum á tuttugustu öld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband