Hvað segir fjölmiðlafræðingurinn?

Ótrúlegar fréttir berast þessa dagana af framferði þeirra fjölmiðla íslenskra, sem eru í eigu auðjöfra og útrásarvíkinga.

Seytján ára piltur braust inn í tölvu lögfræðings, fann þar gögn um Eið Smára Guðjohnsen og Bjarna Benediktsson og seldi þau DV.  Það er hlálegt til þess að vita, að blaðið, sem gerðist þannig þjófsnautur, skuli vera rekið af hæstaréttarlögmanni.

Síðan hefur Sigurjón M. Egilsson, sem hefur verið fréttastjóri Fréttablaðsins og ritstjóri DV, upplýst, að væntanlega hafi verið greitt fyrir þau tölvugögn Jónínu Benediktsdóttur, sem tekin voru ófrjálsri hendi og birt í Fréttablaðinu 2005. Verður það mál þá enn ógeðfelldara en ella.

jon-asgeir-johannesson-415x275_958345.jpgVið sjáum líka á hverjum degi, hvernig Fréttablaðið ýmist þegir um fréttir óþægilegar aðaleigandanum, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eða birtir eitthvað smáræði til málamynda. DV hlífir Jóni Ásgeiri líka oftast. Til dæmis birtist þar fréttaskýring um tengsl forsetans við auðjöfra. Ekki var minnst einu orði á Jón Ásgeir. Einnig prentaði blaðið ljósmyndir af húsum auðjöfra og útrásarvíkinga erlendis. Hvergi var mynd af skrauthýsum Jóns Ásgeirs.

Áhugafólk um fjölmiðla hlýtur enn fremur að vera illa snortið, þegar það les í greinum Jóhannesar Jónssonar, föður Jóns Ásgeirs, að fyrirtæki, sem almenningur á, en hann fær af einhverjum ástæðum enn að reka, hafi sett Morgunblaðið í auglýsingabann, en það er ekki eins þægt í taumi og þeir fjölmiðlar, sem Baugsfeðgar eiga sjálfir beint og óbeint og stjórna.

Aðaleigandi Baugsmiðlanna, Jón Ásgeir Jóhannesson, er ekki aðeins dæmdur brotamaður (hann fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í Baugsmálinu), heldur ber hann líka höfuðábyrgð allra Íslendinga á hruninu. Hann virtist fyrir hrun hafa einhvers konar sjálftökuheimild í öllum íslensku bönkunum og var orðinn stærsti skuldunautur þeirra. Undir lokin skuldaði hann þúsund milljarða! Ekki þúsund milljónir, heldur þúsund milljarða.

birgir_gumundsson_jpg_280x800_q95.jpgEn Birgir Guðmundsson, fjölmiðlafræðingur á Akureyri, hefur litlar áhyggjur af öllum þessum ósköpum. Hann lætur sig frekar varða þá ekki-frétt, að fleiri lesi Fréttablaðið en Morgunblaðið, eins og kemur fram í viðtali við hann í DV 4. febrúar 2010. Hann getur þess ekki, að Fréttablaðið er sent í hvert hús endurgjaldslaust. Í kreppunni geta menn því ekki sagt því upp frekar en Ríkisútvarpinu. Þetta er marklítill samanburður. Rétta spurningin væri, hversu margir væru reiðubúnir til að greiða fyrir Fréttablaðið. Líklega væru það innan við 10% núverandi lesenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband