Fleira að bráðna en jöklar

snaefell6.jpgÉg hef sagt frá því eins og fleiri, að Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, varð nýlega að leiðrétta spá í síðustu skýrslu sinni frá 2007 um það, að jöklar í Himalajafjöllum yrðu horfnir árið 2035 vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Forseti Íslands hefur margoft notað þessa spá í ræðum sínum, og fyrirtæki tengt honum, sem Kristján Guy Burgess, núverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra, rak, útvegaði röskra 60 milljón Bandaríkjadala styrk frá Carnegie-stofnuninni í New York til rannsókna á þessari skyndilegu bráðnun jökla. Var féð ætlað stofnun undir stjórn dr. Rajendra Pachauri, formanns IPCC, sem margoft hefur komið til Íslands og telur til vináttu við forseta Íslands. Er nafn Háskóla Íslands líka nefnt í þessu sambandi.

Spáin reyndist ekki styðjast við nein vísindaleg gögn, heldur var hún aðeins getgáta lítt kunns indversks vísindamanns í viðtali við New Scientist árið 1999, átta árum áður en skýrsla IPCC birtist. Hefur IPCC beðist opinberlega afsökunar á þessu máli og heitið leiðréttingum hið snarasta, en formaðurinn, dr. Pachauri harðneitar samt að segja af sér. Erlendir fjölmiðlar hafa gert málinu góð skil og bent á, hversu óheppilegt það sé, að formaðurinn hafi haft fjárhagslega hagsmuni af málinu. Kristján Guy Burgess vill hins vegar ekki svara spurningum um málið.

Nú er fleira komið í ljós, eins og breska stórblaðið Daily Telegraph upplýsir. Í áðurnefndri skýrslu Loftslagsnefndarinnar frá 2007 segir, að snjóhettur á fjöllum og jöklar í fjallgörðum séu að hopa á Andes-svæðinu, í Ölpunum og víða í Afríku vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Vísað er í heimildir fyrir þessu. Þegar að er gáð, eru heimildirnar tvær. Önnur er grein eftir fjallgöngugarpinn Mark Bowen, sem er einnig áhugamaður um loftslagsbreytingar og hefur skrifað tvær bækur um þær. Hún birtist í hinu alþýðlega tímariti Climbing 2002, sem ætlað er fjallgöngumönnum. Þar er vitnað í fjölda fjallgöngumanna um, að jöklar séu að hopa. Hin heimildin er meistaraprófsritgerð í landafræði við Bern-háskóla í Sviss eftir Dario-Andri Schworer. Þar er einnig vitnað í fjölda fjallgöngumanna um, að jöklar séu að hopa.

Hvorug heimildin er ritrýnd. Hvorug telst því gjaldgeng í heimi vísindanna (þótt hins vegar sé líka fróðlegt að lesa í tölvupósti starfsmanna í loftslagsfræðasetri háskólans í Austur-Anglia, hvernig þeir leggja á ráðin um að torvelda efasemdarmönnum um, að mestöll hlýnun jarðar sé af mannavöldum, að birta ritgerðir í ritrýndum tímaritum).

Sjálfur efast ég ekki um, að jörðin hafi hlýnað talsvert árin 1980–2000 og að enn sé óvenjuhlýtt, þótt ekki hafi raunar haldið áfram að hlýna eftir 2000. Ég efast ekki heldur um, að einhver tengsl séu milli hlýnunar jarðar og losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og þorri vísindamanna telur, þótt hitt sé einkennilegt, að á sama tíma og sú losun hefur stóraukist, frá 2000, hefur hætt að hlýna. En heilbrigð skynsemi segir mér, að margt fleira ráði loftslagsbreytingum en hegðun mannanna, til dæmis virkni sólar og straumar í hafi, að hlýnun hafi eins og kólnun í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar og að gert hafi verið of mikið úr hrakspám um hlýnun. (Það er ekki frétt, þegar hundur bítur mann; það er frétt, þegar maður bítur hund; Það er ekki frétt, að heimurinn haldi áfram að vera til; það er frétt, að heimurinn sé að farast.)

Enginn vafi er á því, að jöklar hafa verið að hopa síðustu áratugi. Við Íslendingar sjáum það gleggst á jöklum okkar (þótt enn séu þeir ekki orðnir jafnlitlir og á þjóðveldistímanum). En ástæðulaust er að hlaupa á eftir hverri einustu hrakspá. Fleira getur horfið en jöklar, þar á meðal trúverðugleiki Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband