Óheillakrákur

2raduneytijs09_957040.jpgRíkisstjórnin varð ársgömul í gær, 1. febrúar 2010. Þessi samstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna komst til valda í skjóli ofbeldis, og fyrsta verk hennar var mikið óheillaspor, þegar Jóhanna Sigurðardóttir hrakti fyrrverandi samstarfsmann sinn og góðkunningja, Davíð Oddsson, úr stöðu seðlabankastjóra. Með því braut hún ekki aðeins regluna um sjálfstæði seðlabanka, heldur líka hið óskráða siðferðislögmál um drengskap í samskiptum við gamla samstarfsmenn.

Jóhanna er óhæf til að vera forsætisráðherra. Þegar hún var óbreyttur ráðherra, grúfði hún sig  áhugalaus niður í plögg sín á ríkisstjórnarfundum, uns kröfur hennar um aukin fjárframlög til hugðarefna hennar komust á dagskrá. Þá lifnaði yfir henni, en hún greip þá oftar til hótana en raka. Jóhanna er mannafæla, sem kann engin erlend mál, að því er virðist, en sjaldan hefur verið brýnna að tala máli Íslendinga vel og skörulega erlendis en nú. Ekki má heldur gleyma því, að Jóhanna sat í ríkisstjórninni 2007–2009, sem skeytti engu um margendurteknar viðvaranir Davíðs Oddssonar.

Viðskiptaráðherrann, Gylfi Magnússon, var formaður Samkeppnisráðs 2005–2009, en líklega var ein helsta veilan í viðskiptalífi landsmanna þau ár skortur á samkeppni. Einokunarfurstar réðu lögum og lofum, og Gylfi var ólíkt Davíð Oddssyni í klappliði þeirra. Tók hann meðal annars þátt í að veita bankamönnum verðlaun. Í ráðherratíð sinni hefur Gylfi orðið uppvís að ósannindum. Hann harðneitaði að hafa látið þau orð falla við erlenda blaðamenn, sem þeir áttu til upptökur af.

Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, hafði stór orð um alla samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-málið í janúar 2009, áður en hann varð ráðherra. Síðan settist hann niður og lét undan öllum kröfum þeirra. Nú gengur hann erinda þessara þjóða frekar en Íslendinga, að því er virðist. Steingrímur gagnrýndi líka harðlega tilboð Björgólfsfeðga sumarið 2009 um að greiða helming skulda sinna gegn því að fá afganginn felldan niður. Hann neitaði hins vegar að segja nokkuð um tilboð Baugsfeðga skömmu fyrir áramót um að greiða fimmtung skulda sinna í Högum gegn því að fá afganginn felldan niður.

Aðrir ráðherrar eru svipaðar óheillakrákur. Leitun er á lakari ríkisstjórn á norðurhveli jarðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband