Heimildir erlendra blaðamanna

logo-london.pngÞví miður hafa sumir þeir Íslendingar, sem ræða við erlenda blaðamenn, meiri áhuga á að gera upp við innlenda andstæðinga en kynna málstað Íslendinga. Gott dæmi er stutt hugleiðing, sem Archie Bland, blaðamaður breska blaðsins Independent, birtir á heimasíðu þess 8. janúar. Þar segir hann furðulegt, að þeir, sem beri ábyrgð á bankahruninu íslenska, skuli enn hafa veruleg áhrif. Nefnir hann tvo til, Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, og mig. Kættist DV að vonum við, og Egill Helgason álitsgjafi (einn heimildarmaðurinn?) tók þetta líka flissandi upp.

Heimildarmenn Blands hafa líklega ekki sagt honum, að Davíð Oddsson varaði fyrstur manna við ofurvaldi auðjöfranna. Hann mótmælti ofurlaunum þeirra haustið 2003 með því að taka innstæðu sína út úr Kaupþingi. Hann reyndi með fjölmiðlafrumvarpinu sumarið 2004 að takmarka kost þeirra á að ráða allri skoðanamyndun í landinu, en kom því ekki fram fyrir andstöðu auðjöfranna, sem áttu áhrifamikla vini á Bessastöðum, í röðum stjórnmálamanna (Borgarnesræðumanna), á fjölmiðlum og jafnvel í dómstólum.

Hvar voru íslensku spekingarnir, sem nú keppast við að fræða útlenda blaðamenn, í þessum átökum frá hausti 2003 til jafnlengdar 2004 milli Davíðs og Golíats um Ísland? Hvar var til dæmis Andri Snær Magnason, sem talaði við Bland? Hann var einn aðalvinur auðjöfranna.

Eftir að Davíð varð seðlabankastjóri, varaði hann hvað eftir annað við hinum öra vexti bankanna, jafnt í einkasamtölum við forystumenn stjórnarflokkanna (Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur) og opinberlega. Má sérstaklega nefna ræðu hans á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007. Hann gagnrýndi einnig síðar, á morgunfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember 2008, að einn aðili gæti safnað þúsund milljarða skuld í krafti ítaka sinna og áhrifa sinna (sem eru meðal annars á fjölmiðla).

Hvar voru íslensku spekingarnar, sem nú keppast við að fræða útlenda blaðamenn, þegar Davíð varaði við vexti bankanna árin 2006–2008? Hvar var til dæmis Andri Snær Magnason, sem talaði við Bland? Hann sat veislur auðjöfranna, vildi taka upp fjármálaþjónustu, en hverfa frá hefðbundnum atvinnuvegum Íslendinga. (Ég vildi gera hvort tveggja.)

Þeir, sem rætt hafa við Archie Bland, hafa ekki heldur hirt um að geta þess, að skörp skil urðu í stjórnmálum haustið 2004. Sú stefna, sem fylgt var fyrir þann tíma, bar mjög góðan árangur, eins og ég sýni fram á í væntanlegri bók. En eftir það komust linir stjórnmálamenn til valda, og valdajafnvægið í landinu raskaðist: Auðjöfrarnir, sem viðmælendur Archies Blands æmtu ekki né skræmtu yfir, urðu alráðir. Ef einhverjum innlendum aðilum er um bankahrunið að kenna, þá er það auðjöfrunum með Baugsfegða í broddi fylkingar og viðhlæjendum þeirra, þar á meðal eflaust ýmsum heimildarmönnum Blands.

Sjálfur átti ég á sínum tíma erfitt með að trúa viðvörunum Davíðs. Mér finnst hann um of við hugann við gamlar væringar sínar og Baugsfeðga. Nú sé ég, að allar viðvaranir hans voru á rökum reistar. Hann skynjaði hættuna á undan öðrum. Aðrir þjóðir höfðu undirmálslán. Við höfðum lán til undirmálsmanna eins og Baugsfeðga.

Hitt er annað mál, að Archie Bland viðurkennir, að sökin liggur ekki síst hjá Bretum, sem áttu snaran þátt í bankahruninu með fautalegum vinnubrögðum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband