Varað við óhóflegri bjartsýni

ad_404.jpgSífellt fleiri málsmetandi útlendingar taka nú undir þau sjónarmið, sem ég reifaði í grein minni í Wall Street Journal 7. janúar 2010, að Íslendingar beri að lögum enga greiðsluskyldu vegna Icesave-reikninganna (sú skylda hvíli á herðum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta), að ósæmilegt sé að krefja þjóðina um greiðslur, sem geri hana í reynd gjaldþrota, og að taka verði tillit til þess, að um bankahrun var að ræða á Íslandi, en ekki aðeins þrot einhvers hluta þess, eins og reglur EES um innstæðutryggingar eru miðaðar við.

Þeirra á meðal eru dr. Michael Waebel, sérfræðingur í alþjóðalögum, í aðsendri grein í Financial Times 8. janúar, Bronwen Maddox, virtur breskur álitsgjafi og dálkahöfundur, í pistli í The Times 9. janúar og Ruth Sunderland, viðskiptaritstjóri á Guardian, í pistli 10. janúar.

Við Íslendingar verðum þó að átta okkur á, að þessi samúðarbylgja með okkur ræður ekki úrslitum, þótt kærkomin sé. Samningamenn Breta og Hollendinga eru gamalreyndir og kippa sér ekki upp við blaðaskrif. Þeir ganga eins langt og þeir geta og hafa áreiðanlega til þess óskorað umboð ríkisstjórna sinna. Auðvitað munu þeir fullyrða fyrir hina væntanlegu þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi, að við eigum ekki kost á betri samningi. Samþykki Íslendingar ekki Icesamninginn, þá sé voðinn vís. Þeir munu fara að okkur með hótunum og blíðmælum á víxl.

Hitt er verra, að vinstristjórnin íslenska hefur ekki sýnt málstað Íslendinga mikinn áhuga. Þegar Eva Joly skrifaði í erlend blöð í ágúst Íslendingum til varnar, var því fálega tekið í forsætisráðuneytinu. Þegar Sigurður Kári Kristjánsson benti á, að fjármálaráðherra Hollands hefði viðurkennt í ræðu í mars 2009, að innstæðutryggingakerfi EES hefði ekki verið hugsað fyrir bankahrun, virtist það ekki hafa nein áhrif á samningamenn Íslendinga.

Eftir að forseti Íslands hafði synjað lögunum um Icesave-samninginn staðfestingar, brugðust ráðherrar vinstristjórnarinnar við með því að bergmála hér innanlands hótanir Breta og Hollendinga í garð Íslendinga, ekki með því að minna erlendis á málstað okkar og sjónarmið. Þetta er áhyggjuefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband