Engin greiðsluskylda

economist_logo.jpgBreska tímaritið Economist bendir á það í nýjasta hefti, eins og Morgunblaðið greinir frá í dag, að enginn skýr lagabókstafur virðist vera fyrir greiðsluskyldu ríkja, ef bankar þeirra komast í þrot og geta ekki staðið skil á innstæðum. Greiðsluskyldan hvílir hvarvetna á sérstökum sjóðum, sem bankarnir greiða í og eiga að mynda eins konar samtryggingu bankanna.

Hitt er annað mál, að flest ríki sjá sér hag í því, að bankar komist ekki í þrot, svo að innstæðueigendur verði ekki hræddir og taki unnvörpum fé sitt út úr bönkum með þeim afleiðingum, að bankakerfið hrynji. Þess vegna hafa mörg ríki lýst yfir því, að þau ábyrgist innstæður í bönkum, jafnvel allar innstæður. Þetta er skiljanlegt og hugsanlega eðlilegt, en kemur ekki hinni þröngu lagaskyldu við.

Bretar og Hollendingar kusu að greiða út innstæður á Icesave-reikningum Landsbankans í löndum þeirra. Það var þeirra mál. Hitt er umdeilanlegra, að þeir telja sig hafa endurkröfurétt á íslenska ríkið, en ekki aðeins á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, en ljóst er, að sá sjóður getur ekki staðið við skuldbindingar sínar, þótt hann hafi verið settur upp samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

screenshot_0608.jpgNú er því haldið fram, að það sé öfgaskoðun, að Íslendingar beri ekki greiðsluskyldu að lögum, heldur eigi reikningurinn fyrir aðgerðir Breta og Hollendinga að staðnæmast hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Eru lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, sem fært hafa skýr lagaleg rök að þessu, öfgamenn? Er tímaritið Economist, sem nú tekur undir þetta, öfgablað? Er vinstristjórnin öfgastjórn? Í 2. grein samningsins, sem hún gerði við Breta og Hollendinga, segir:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Eða er maðurinn, sem heldur þessu fram (Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri DV), ef til vill sjálfur öfgamaður, sem hefur hausavíxl á hugtökum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband