Grein mín í Wall Street Journal

wall_street_journal_logo.gifEins og fram hefur komið í fjölmiðlum, birti ég grein í Wall Street Journal 7. janúar 2010, þar sem ég reyni að skýra andstöðu Íslendinga við samningana, sem vinstristjórnin gerði við Breta og Hollendinga um að endurgreiða þeim það fé, sem þeir hafa lagt út vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Ég minni á, að þetta voru nauðungarsamningar: Bretar notfærðu sér, að Lundúnir eru alþjóðleg fjármálamiðstöð, og stöðvuðu allt fjárstreymi um borgina til og frá Íslandi í upphafi lánsfjárkreppunnar í október 2008. Þeir og Hollendingar nýttu sér líka áhrif sín í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að fá sjóðinn til að setja það skilyrði fyrir lánveitingum til Íslands, að látið yrði undan kröfum Breta og Hollendinga, þótt sjóðurinn þræti raunar fyrir það.

Þá verður að hafa í huga, að Bretar áttu sjálfir ríkan þátt í hruni bankanna með því að setja Landsbankann (og um skeið Seðlabankann og fjármálaráðuneytið) á lista um hryðjuverkasamtök, jafnframt því sem þeir veittu banka Kaupþings í Bretlandi ekki aðstoð einum breskra banka. Eiga Íslendingar að bæta tjón, sem Bretar ollu?

Ég bendi á, að greiðslur samkvæmt samningunum eru langt umfram greiðslugetu Íslendinga. Jafnframt hefur ríkissjóður enga greiðsluskyldu samkvæmt lögum, eins og er raunar tekið fram í samningunum. Það er Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem ber greiðsluskylduna, og ef hann getur ekki staðið í skilum við innstæðueigendur við bankahrunið, þá er hvergi í lögum eða alþjóðasamningum kveðið á um neina greiðsluskyldu ríkissjóðs.

Einnig rifja ég upp orð Jean-Claude Trichet, bankastjóra Seðlabanka Evrópu, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sem báðir hafa sagt opinberlega, að innstæðutryggingarkerfið evrópska eigi ekki við um hrun heils bankakerfis, heldur aðeins um greiðsluerfiðleika einstakra banka.

Að lokum furða ég mig á því í greininni, hversu lin íslenska vinstristjórnin hefur verið í öllum samningum við Breta og Hollendinga. Hún hefur haft meiri áhuga á að kynna Íslendingum sjónarmið þeirra en umheiminum sjónarmið Íslendinga. Ef til vill ræður áhugi Samfylkingarinnar á að komast í Evrópusambandið einhverju um þessi undarlegu vinnubrögð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband