Ósigur og afglöp vinstristjórnarinnar

ossur_skarphedinsson_949367.jpgVinstristjórnin hefur lagt mikið undir í Icesave-málinu. Einn ráðherra Vinstri-grænna sagði af sér, af því að hann treysti sér ekki til að veita því brautargengi, og nokkrir þingmenn sama flokks laumuðust af vettvangi. Vinstristjórnin hélt þó sínu striki. Það er henni greypilegur ósigur eftir þessa erfiðu göngu, að málið skuli nú hafa stöðvast á skrifborði forsetans.

Við, sem erum málinu andvíg, hljótum að fagna því, að kjósendur skuli nú fá að kveða upp úr um skoðun sína á því. En viðbrögð vinstristjórnarinnar við synjun forsetans eru stóreinkennileg. Augu umheimsins beindust stutta stund að Íslandi. Í stað þess að nota tækifærið til að flytja vandaða kynningu á málstað Íslendinga endurómaði vinstristjórnin gömlu hótanirnar frá Bretum og Hollendingum um útskúfun og viðskiptabann.

Utanríkisráðherrann og forsætisráðherrann hefðu átt að vera óþreytandi við að vekja athygli erlendra ráðamanna og fjölmiðlamanna á staðreyndum málsins:

  • Það er fáránlegt og andstætt öllum eðlilegum venjum og reglum, að íslenskir skattgreiðendur beri ábyrgð á viðskiptum einkaaðila erlendis.
  • Icesave-samningarnir eru langt umfram raunhæfa greiðslugetu Íslendinga. Byrðarnar af þeim eru svipaðar og lagðar voru með nauðungarsamningum á Þjóðverja í skaðabætur eftir fyrra stríð.
  • Íslendingar fóru eftir öllum reglum EES, þegar þeir settu upp Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Íslenska ríkið er ekki ábyrgð eftir neinum lagabókstaf fyrir því tjóni, sem sá sjóður getur hugsanlega ekki bætt innstæðueigendum.
  • Jean-Claude Trichet, bankastjóri Evrópska seðlabankans, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafa báðir viðurkennt opinberlega, að innstæðutryggingakerfi EES eigi aðeins við, þegar þurfi að forða einum banka eða nokkrum frá rekstrarstöðvun, ekki öllu bankakerfinu.
  • Bretar ollu með beitingu hryðjuverkalaga sinna miklu um það tjón, sem þeir heimta nú, að Íslendingar bæti. Eigur íslensku bankanna væru nú miklu meira virði, hefðu Bretar ekki farið fram með þessari óbilgirni. Þeir eiga að bera þetta tjón sjálfir.
  • Icesave-samningarnir voru nauðungarsamningar, og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er kominn langt út fyrir lögmælt hlutverk sitt með því að gerast handrukkari fyrir Breta og Hollendinga.

En ef til vill er ekki unnt að ætlast til mikils, þegar forsætisráðherrann er mállaus mannafæla og utanríkisráðherrann tungulipur sprellikarl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband