Sálin gráni ekki

Í leikriti Shakespeares, Rómeó og Júlíu, heldur Capulet gamli dansleik, en þegar hann sér jafnaldra sinn einn taka þátt í dansinum, bandar hann honum frá og segir: „Við erum báðir vaxnir upp úr dansi!“ Þótt ég hafi orðið sjötíu og eins árs í febrúar á þessu ári, get ég ekki sagt, að ég sé vaxinn upp úr dansi, og naut ég þess á kjötkveðjuhátíðinni í Rio de Janeiro um það leyti.

Hitt er annað mál, að hárið hefur gránað með aldrinum. Rifjast þá upp, þegar þeir Steinn Steinarr og Dósóþeus Tímóteusson (sem aðallega var frægur fyrir sitt óvenjulega nafn) sátu saman við borð á Hressingarskálanum í Austurstræti einn góðan veðurdag árið 1951. Kom Dósóþeus auga á Tómas Guðmundsson annars staðar í salnum og sagði við Stein: „Hér situr Tómas skáld!“ Steinn mælti þá fram vísu, sem þegar varð fleyg.

Hér situr Tómas skáld með bros á brá,
bjartur og hreinn sem fyrsta morgunsárið.
Ó, vinur, hvað mig tekur sárt að sjá,
að sálin hefur gránað fyrr en hárið.
 

Steinn var reiður Tómasi, sem hafði skopstælt órímuð ljóð Steins í vinsælum hláturleik (revíu) í Reykjavík, Bláu stjörnunni. Vísan er til í nokkrum útgáfum, en hér hef ég hana frá eiginkonu Steins, Ásthildi Björnsdóttur.

Auðvitað var þessi fyndni Steins ómakleg. Tómasi Guðmundssyni hafði aðeins orðið það á að vera ekki sami skipbrotsmaðurinn í lífinu og margir íslenskir rithöfundar. Þó fæ ég ekki betur séð en Steinn hafi í vísunni óafvitandi gefið það ráð, sem við á áttræðisaldri ættum sem flest að fylgja: að gæta þess, að sálin gráni ekki um leið og hárið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.)  

 

Palestínu-Arabar í Danmörku

Hegel sagði í inngangi að Söguspeki sinni, að þjóðir hefðu aldrei lært neitt af sögunni. Sennilega er eitthvað til í þessu. Íslendingar hyggjast nú taka við um 100 hælisleitendum frá Palestínu. Þetta er sami fjöldi og önnur Norðurlönd ætla að taka við til samans (en því til viðbótar taka þau auðvitað við eigin ríkisborgurum). En hvað skyldi sagan segja okkur?

Árið 1991 komst hópur 321 Palestínu-Araba til Danmerkur. Þeir leituðu hælis, en var synjað af þar til bærum yfirvöldum. Þá lögðu um hundrað þeirra undir sig kirkju í Kaupmannahöfn, og reis nú samúðarbylgja með þeim. Kim Larsen hélt tónleika þeim til stuðnings, og Anker Jørgensen, fyrrverandi forsætisráðherra, heimsótti þá í kirkjuna. Samþykktu vinstri flokkar á þingi sérstök lög árið 1992 um að veita fólkinu hæli.

Dönsk ráðuneyti hafa birt tölur um, hvernig þessum hópi hefur reitt af árin 1992–2019. Af þessum 321 Palestínu-Araba hafa 204, um tveir þriðju, hlotið dóma fyrir margvísleg afbrot, þar af 71 fangelsisdóma. Af þessum 321 eru 176 eða röskur helmingur á framfæri hins opinbera.

Sumir benda á, að tölurnar séu ekki eins slæmar fyrir afkomendur þess. Þeir eru 999 talsins. Af þeim hafa 337, einn þriðji, hlotið dóma fyrir margvísleg afbrot, þar af 132 fangelsisdóma. Af þessum 999 manna hópi eru 372 á bótum, en tekið er fram, að af þeim bótaþegum séu 194 í starfsþjálfun.

Auðvitað eru Palestínu-Arabar að upplagi hvorki betri né verri en aðrir. En í menningu þeirra er ofbeldi liðið og jafnvel lofsungið og ekkert talið rangt við að þiggja bætur, þótt fólk sé fullhraust og geti unnið fyrir sér sjálft.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.)


Sagnritun dr. Gylfa (5)

Aliber-Robery-ZNýlega kvartaði dr. Gylfi Zoëga undan því í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti aðallega við mig. Í skrifum sínum gerir dr. Gylfi mikið úr varnaðarorðum prófessors Roberts Z. Alibers um bankana vorið 2007. Aliber er þó ekki óskeikull. Hann spáði því í ársbyrjun 2010, að Grikkland myndi hrökklast út af evrusvæðinu, og í árslok 2013, að evrusvæðið myndi klofna í tvennt. Hvorugt gekk eftir. En ef maður þeytist um og spáir alls staðar ósköpum, þá hljóta einhverjar spárnar loks að rætast.
Aliber er þó glúrinn náungi, og dr. Gylfi hefði mátt taka mark á honum um tvennt. Í bókinni Manias, Panics, and Crashes: A History of Financial Crises, sem Aliber samdi ásamt Charles P. Kindleberger, er bent á (í 5. útg. 2005, 104. bls.) greinarmuninn á tvenns konar orsökum fjármálaáfalla: „causa remota“ (fjarlæg orsök) eru hin almenn skilyrði fyrir áfalli, en „causa proxima“ (nálæg orsök) sjálf kveikjan að áfallinu. Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu gerði aðeins grein fyrir „causa remota“, stærð bankakerfisins, sem var nauðsynlegt skilyrði fyrir bankahruninu, ekki nægilegt. Nefndin horfði fram hjá „causa proxima“, sem var, að Íslandi var synjað um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og grannþjóðir fengu, svo að áhlaup á bankana leiddi til falls þeirra. Hún reyndi ekki að skýra þessa synjun.
Í Heimildinni heldur dr. Gylfi því fram, að Íslendingar hafi gert þrennt rétt í bankahruninu, að ábyrgjast ekki allar skuldir bankanna, að koma í veg fyrir bankaáhlaup innan lands með því að ábyrgjast innlendar innstæður og að leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefur rétt fyrir sér um fyrsta atriðið. En annað atriðið er ekki nákvæmt hjá honum: Ríkið gerði með lögum allar innstæður að forgangskröfum, jafnt erlendar og innlendar, en ábyrgðist ekki sérstaklega innlendar innstæður (á annan hátt en með almennum hughreystingarorðum, sem þó hrifu). Og um þriðja atriðið sagði Aliber: Fylgið áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en takið ekki lán hjá honum. Þetta stóra lán var aldrei notað, en bar háa vexti. Hér hafði Aliber rétt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. febrúar 2024.)


Orðaskipti við Illuga Jökulsson

Illugi Jökulsson birti færslu núna í morgun:

Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. „Innviðirnir eru komnir að þolmörkum, ég get ekkert lið lagt,“ sagði presturinn við sjálfan sig. Eins kom og Levíti þar að, sá manninn og sveigði fram hjá. „Við erum nú þegar að hjálpa fleirum en Norðurlöndin samanlögð,“ hugsaði Levítinn. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá manninn kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: „Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.“ Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?
 
Ég svaraði:
 
Þú gleymir ýmsu: 1) Presturinn og levítinn voru úr flokki ykkar menntamannanna, harðbrjósta mælskumenn. 2) Samverjinn gerði góðverk sitt fyrir eigið fé, ekki annarra. Þið vinstri menn gerið öll ykkar góðverk á kostnað annarra. 3) Samverjinn var aflögufær, svo að þetta var röksemd fyrir því, að til væri efnafólk. 4) Maðurinn var rændur, af því að ekki var haldið uppi lögum og reglu á veginum frá Jórsölum til Jeríkó. Það er einmitt erfitt að halda uppi lögum og reglu, þar sem fjölmennir hópar ganga í lið með stigamönnunum, eins og gerist í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum. Glæpatíðni er mest meðal Palestínu-Araba, og lögreglan hættir sér ekki inn í sum hverfi. Viljum við hafa sama ástand og á veginum milli Jórsala og Jeríkó?

Sagnritun dr. Gylfa (4)

W08_Thorvaldur_Gylfason_speaker_ArnarhollNýlega sagði dr. Gylfi Zoëga í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti við mig, en ég hef sett fram þá skoðun, að bankahrunið hafi verið „svartur svanur“, óvæntur atburður, sem aðeins sé fyrirsjáanlegur eftir á. En auðvitað er það rétt, sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, að íslensku auðjöfrarnir fóru langt fram úr sjálfum sér. Þegar fyrrverandi ráðamenn eru hins vegar gagnrýndir fyrir að hafa ekki haldið þeim í skefjum, verður ekki aðeins að hafa í huga takmarkaðar valdheimildir þeirra, heldur líka hið einkennilega andrúmsloft í landinu. Þegar voldugasti auðjöfurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, sætti ákæru vorið 2005 fyrir ýmis efnahagsbrot, skrifaði vinur dr. Gylfa, Þorvaldur Gylfason: „Nú virðist standa til að jafna um Jón Ásgeir og fimm menn aðra fyrir rétti. Hvað býr að baki?“
Rannsóknarnefnd Alþingis sakaði í skýrslu sinni sjö fyrrverandi ráðamenn um vanrækslu, þótt hún beitti lögum afturvirkt, því að hún vísaði aðeins í lögin um nefndina sjálfa, og þau voru ekki sett fyrr en í árslok 2008. En spyrja má: Hvers vegna var þá Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki sökuð um vanrækslu? Hún hafði afgreitt viðvaranir Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra sem „útaustur eins manns“ og hvatt bankana í septemberbyrjun 2008 til að halda áfram innlánasöfnun sinni erlendis. Hún bar líka ábyrgð á því, sem var líklega eina alvarlega brotið á góðum stjórnsýsluvenjum í aðdraganda bankahrunsins, að bankamálaráðherrann var ekki hafður með í ráðum í Glitniskaupunum. Og hvað um Jón Sigurðsson, formann stjórnar fjármálaeftirlitsins? Samkvæmt lögum átti forstjóri fjármálaeftirlitsins að bera allar „meiri háttar ákvarðanir“ undir stjórnina. Var Jóni hlíft, af því að hann var æskuvinur föður eins nefndarmannsins, Sigríðar Benediktsdóttur? Og hafði það einhver áhrif, að varaformaður stjórnarinnar var gift einum starfsbróður annars nefndarmanns, Páls Hreinssonar? Ég tek fram, að meira máli skiptir að læra af reynslunni en leita uppi sökudólga, og eflaust er dr. Gylfi sammála mér um það. En ráðamennirnir sjö, sem rannsóknarnefndin hjó til, voru engu meiri sökudólgar en þau Ingibjörg Sólrún og Jón. Þetta fólk var allt að reyna að gera sitt besta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. febrúar 2024.)


Sagnritun dr. Gylfa (3)

DarlingBrown.KenJack:AlamyNýlega sagði dr. Gylfi Zoëga í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu íslenska bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti við mig, þótt ég sé ekki að reyna að endurskrifa söguna, heldur hafa það, sem sannara reynist. Hér skal ég benda á fjórar mikilvægar staðreyndir um bankahrunið, sem ég hef bent á, en aðrir leitt hjá sér, þar á meðal dr. Gylfi.
Fyrsta staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins þurfti ekki að beita hryðjuverkalögum til að koma í veg fyrir hugsanlega ólöglega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands. Þegar hafði verið girt fyrir þann möguleika með tilskipun Breska fjármálaeftirlitsins til Landsbankans 3. október 2008, þar sem bankanum var bannað að flytja fé úr landi nema með skriflegu leyfi fjármálaeftirlitsins og þriggja daga fyrirvara. (Það reyndist ekki heldur vera fótur fyrir ásökunum um ólöglega fjármagnsflutninga Kaupþings til Íslands, enda þagnaði allt tal um það skyndilega.)
Önnur staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins braut samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þegar hún bjargaði öllum breskum bönkum öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Með því mismunaði stjórnin eftir þjóðerni, sem var bannað samkvæmt samningnum og líka Rómarsáttmálanum. Furðu sætir, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli ekki hafa gert athugasemd við þetta.
Þriðja staðreyndin er, að þessir tveir bankar, Heritable og KSF, sem bresk stjórnvöld lokuðu, um leið og þau björguðu öllum öðrum breskum bönkum, reyndust eiga fyrir skuldum, þegar upp var staðið. Svo virðist sem sumir aðrir breskir bankar, sem fengu aðstoð, til dæmis RBS, Royal Bank of Scotland, hafi hins vegar ekki átt fyrir skuldum, þótt kapp sé lagt á að fela tapið og fresta uppgjörum.
Fjórða staðreyndin er, að íslensku bankarnir gerðust ekki sekir um nærri því eins alvarleg brot og til dæmis Danske Bank, sem varð uppvís að stórkostlegu peningaþvætti, og RBS, sem tók þátt í ólöglegri hagræðingu vaxta á millibankamarkaði. Það er kaldhæðni örlaganna, að Danske Bank og RBS hefðu báðir fallið haustið 2008, hefðu þeir ekki fengið lausafjáraðstoð frá bandaríska seðlabankanum og Englandsbanka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.)


Sagnritun dr. Gylfa (2)

RNAÍ nýlegri grein í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, kveður dr. Gylfa Zoëga marga reyna að endurrita sögu bankahrunsins. Með þessum „mörgu“ á hann við mig. En málið snýst ekki um að endurrita neina sögu, heldur hafa það, sem sannara reynist. Gylfi styðst við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Á henni eru margir annmarkar. Einn er, að nefndin yfirheyrði menn ekki í heyranda hljóði eins og rannsóknarnefndir í Bretlandi og Bandaríkjunum gera. Eðlilegt hefði verið að sjónvarpa beint frá yfirheyrslunum. Þess í stað valdi nefndin sjálf úr það, sem hún taldi eiga erindi í skýrslu sína. Stakk hún ýmsu forvitnilegu undir stól.

Annar annmarki er, að nefndin einblíndi á innlenda þætti bankahrunsins, sem vissulega voru mikilvægir, en setti það ekki í alþjóðlegt samhengi. Það var hörð fjármálakreppa í heiminum, sem skall af meiri þunga á Íslandi en öðrum löndum.

Þriðji annmarkinn er, að nefndin veitti ófullkomna skýringu á bankahruninu. Hún sagði bankana hafa fallið, því að þeir hefðu verið of stórir. Röklega er þessi skýring svipuð þeirri, að gler brotni, af því að það sé brothætt, eða ópíum svæfi vegna svæfingarmáttar síns. Stærðin var nauðsynlegt, en ekki nægilegt skilyrði fyrir bankahruninu. Svissnesku bankarnir hrundu ekki, og var stærð þeirra þó tíföld landsframleiðsla. Samkvæmt útreikningum dr. Gylfa sjálfs var stærð íslenska bankakerfisins fyrir hrun þess um 7,8-föld landsframleiðsla.

Fjórði annmarkinn á skýrslu nefndarinnar er, að hún vildi sefa almenning með því að leita uppi sökudólga í hópi ráðamanna, en fann enga (þótt gagnrýni hennar á bankamenn væri um margt réttmæt). Þess vegna skapaði nefndin sökudólga með því að víkka út vanræksluhugtak gildandi laga, svo að hún gæti sakað sjö ráðamenn um vanrækslu. Lögfræðingarnir í nefndinni, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson, vissu, hvað þeir voru að gera. Þeir tóku ætíð fram, að vanrækslan væri í skilningi laganna um nefndina, sem sett voru eftir bankahrunið. Til þess að sefa almenning beittu þeir lögum afturvirkt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2024.)


Sagnritun dr. Gylfa (1)

Dr. Gylfi Zoëga prófessor birti nýlega grein um bankahrunið í málgagni íslenskra vinstriöfgamanna, Heimildinni. Þar segir hann marga hafa reynt að skrifa söguna upp á nýtt. Þeir haldi því fram, að hið sama hafi gerst erlendis og hér á landi, að Bretar og Hollendingar hafi komið illa fram við okkur og að innlend stjórnvöld hafi staðið sig vel eftir bankahrunið. Hann telur sannleikskorn í þessum þremur skoðunum, en aðalatriðið sé að koma í veg fyrir nýtt bankahrun.
Taleb_mugLíklega á ég að taka sneiðina til mín. En ég hef ekki reynt að skrifa söguna upp á nýtt, heldur hafa það, sem sannara reynist. Ég held, að bankahrunið hafi orðið fyrir samverkan margra ólíkra þátta, sem af ýmsum ástæðum toguðu allir í sömu átt. Þetta hafi verið „svartur svanur“, eins og Nassim Taleb kallar það: mikill, óvæntur og ólíklegur atburður, sem verður ekki fyrirsjáanlegur, fyrr en hann er orðinn. Eins og skáldið sagði: Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir.
Þessir þættir voru: 1) Eigendur bankanna höfðu tekið lán fyrir hlutabréfum sínum og sáu verðmæti þeirra snarminnka í kreppunni frá hausti 2007. 2) Íslendingar höfðu komið sér út úr húsi í Danmörku, og Danske Bank vann gegn þeim. 3) Eigendur bankanna nutu lítils trausts erlendis. 4) Vogunarsjóðir veðjuðu óspart gegn bönkunum. 5) Seðlabankar G-10 ríkjanna sammæltust um það í maí 2008 að veita Íslandi ekki lausafjáraðstoð. 6) Innlánasöfnun bankanna erlendis mæltist illa fyrir. 7) Seðlabanki Evrópu krafðist betri trygginga en bankarnir gátu veitt. 8) Bandaríkin skeyttu engu um örlög Íslands. 9) Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Breta voru báðir Skotar og vildu sýna kjósendum sínum, að sjálfstæði væri varhugavert. 10) Lehman Brothers féll, skömmu áður en stórt lán Glitnis var á gjalddaga, svo að kreppan harðnaði og bankinn gat ekki útvegað sér fé. 11) Kaup ríkisins á Glitni mistókust, ekki síst þegar aðaleigendurnir fóru í herferð gegn þeim. Traustið minnkaði í stað þess að aukast. 12) Samfylkingin var höfuðlaus her, því að formaður hennar lá á sjúkrahúsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. janúar 2024.)


Ný sýn á gömul deilumál

David_Friedman_by_Gage_SkidmoreÁrið 2023 fór ég víða og hlustaði á marga fyrirlestra. Tveir voru fróðlegastir. Prófessor David D. Friedman, sem lauk doktorsprófi í eðlisfræði, en hefur löngum starfað sem hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Lissabon í apríl. Hann miðar rökræðunnar vegna við spálíkön milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar, en reynir að bera saman kostnað og ábata af hinni hugsanlegu hlýnun. Niðurstaða hans er, að erfitt sé eða ókleift að sýna fram á, að kostnaðurinn verði meiri en ábatinn. Fróðlegt var að hlusta á hann fara yfir málið og vitaskuld forvitnilegt að gera þennan samanburð, en einblína ekki á aðra hliðina.

Phil Gramm, sem var lengi bandarískur öldungadeildarþingmaður, en þar á undan hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Bretton Woods í nóvember. Hann leiðir rök að því, að tölur frá bandarísku hagstofunni um tekjudreifingu veiti ekki rétta mynd af kjörum Bandaríkjamanna. Ólíkt því sem gerist víðast annars staðar séu tekjurnar ekki ráðstöfunartekjur, reiknaðar eftir skatta og bætur. Skattar lenda af miklu meiri þunga á tekjuháu fólki, en bætur renna í miklu meira mæli til tekjulágs fólks. Þegar tekið er tillit til þess, verður tekjudreifingin miklu jafnari. Gramm bendir á, að heildarneysla tekjulægsta hópsins samkvæmt tölum bandarísku hagstofunnar nemi um tvöföldum heildartekjum hans fyrir skatta og bætur.

Gramm segir, að samkvæmt nýjustu opinberum tölum séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins í Bandaríkjunum um 17-faldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. En bilið minnkar stórkostlega, eftir að reiknað hefur verið með sköttum og bótum. Þá séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins um fjórfaldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. Gramm heldur því fram, að í raun hafi fátækt minnkað í Bandaríkjunum síðustu áratugi og tekjudreifing orðið jafnari.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.)


Deila okkar Evu Hauksdóttur um Palestínu-Araba

Ég setti færslu á Facebook:

Það er óðs manns æði að hleypa fleiri Palestínu-Aröbum inn í landið. Danir hleyptu inn 321 árið 1992, og nú er komin reynsla af því. 204 hafa hlotið dóm fyrir margvísleg afbrot, og 176 eru á opinberu framfæri. Tölur frá Norðurlöndunum, þar á meðal Svíþjóð, sýna, að glæpatíðni er mest hjá Palestínu-Aröbum, en næstmest hjá Sýrlendingum. Auðvitað má ekki dæma heila þjóð eftir þessu, en það þrífst einhver ofbeldismenning hjá þeim, sem við ráðum illa við. (Ég geri ekki ráð fyrir, að neinn taki mark á þessum varnaðarorðum mínum, en ég vil geta rifjað þau upp eftir nokkur ár.)

Eva Hauksdóttir spurði:

Áttu við að ef fólk er í lífshættu þá eigi líkurnar á því að það muni brjóta af sér og þiggja framfærslustyrki í framtíðinni að ráða því hvort björgunaraðgerðir verði reyndar? Eða á það eingöngu við ef það eru arabar sem eru í hættu?

Ég svaraði:

Það væri eflaust ofsagt, að íbúarnir á Gasa svæðinu bæru einhverja hópábyrgð á ódæðum Hamas liða, enda tel ég, að hóp- eða samábyrgðarhugtakið sé ofnotað. Menn bera aðallega ábyrgð á eigin gerðum og ekki annarra. En það breytir því ekki, að þessir íbúar virðast langflestir styðja Hamas liða, ekki aðeins miðað við fagnaðarlætin á torgum úti eftir árásina á Ísrael 7. október, heldur líka samkvæmt skoðanakönnunum, sem Pew og fleiri gera. Við erum engir aðilar að þessari deilu, sem á rætur sínar í, að Arabaríkin neituðu að taka á móti flóttamönnum frá Ísrael. Við þurftum ekki að taka á móti þeirri einni milljón Grikkja, sem flýðu frá Tyrklandi eftir 1920, þeim 400 þúsund Finnum, sem flýðu frá Karelíu árið 1944, þeim 700 þúsund frönskumælandi Alsírbúum, sem flýðu frá Alsír árið 1962, og okkur ber ekki skylda til að taka á móti mörg hundruð þúsund Armenum, sem þurfa nú að flýja frá Nagorno-Karabak, eða öðrum eins fjölda Afgana, sem þurfa nú að flýja frá Pakistan. Það stendur öðrum nær. Grikkland tók á móti Grikkjunum, Finnland tók á móti Finnunum, Frakkar tóku á móti Alsírbúunum, Armenía er að taka á móti Armenunum, og Afganistan verður að taka á móti Afgönunum. Af hverju taka Arabaríkin ekki á móti þessum flóttamönnum? Eru þetta ekki allt Arabar? Hvað um bræðralag múslima? Nóg eiga þessi ríki af fé eftir að hafa okrað á olíu áratugum saman. Af hverju bera háværustu gagnrýnendur Ísraels á Ísland, þær Helga Kress, Pia Hansson og Sema Serdaroglu, aðeins umhyggju fyrir sumum, en ekki öllum?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband