Ný sýn á gömul deilumál

David_Friedman_by_Gage_SkidmoreÁrið 2023 fór ég víða og hlustaði á marga fyrirlestra. Tveir voru fróðlegastir. Prófessor David D. Friedman, sem lauk doktorsprófi í eðlisfræði, en hefur löngum starfað sem hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Lissabon í apríl. Hann miðar rökræðunnar vegna við spálíkön milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar, en reynir að bera saman kostnað og ábata af hinni hugsanlegu hlýnun. Niðurstaða hans er, að erfitt sé eða ókleift að sýna fram á, að kostnaðurinn verði meiri en ábatinn. Fróðlegt var að hlusta á hann fara yfir málið og vitaskuld forvitnilegt að gera þennan samanburð, en einblína ekki á aðra hliðina.

Phil Gramm, sem var lengi bandarískur öldungadeildarþingmaður, en þar á undan hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Bretton Woods í nóvember. Hann leiðir rök að því, að tölur frá bandarísku hagstofunni um tekjudreifingu veiti ekki rétta mynd af kjörum Bandaríkjamanna. Ólíkt því sem gerist víðast annars staðar séu tekjurnar ekki ráðstöfunartekjur, reiknaðar eftir skatta og bætur. Skattar lenda af miklu meiri þunga á tekjuháu fólki, en bætur renna í miklu meira mæli til tekjulágs fólks. Þegar tekið er tillit til þess, verður tekjudreifingin miklu jafnari. Gramm bendir á, að heildarneysla tekjulægsta hópsins samkvæmt tölum bandarísku hagstofunnar nemi um tvöföldum heildartekjum hans fyrir skatta og bætur.

Gramm segir, að samkvæmt nýjustu opinberum tölum séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins í Bandaríkjunum um 17-faldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. En bilið minnkar stórkostlega, eftir að reiknað hefur verið með sköttum og bótum. Þá séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins um fjórfaldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. Gramm heldur því fram, að í raun hafi fátækt minnkað í Bandaríkjunum síðustu áratugi og tekjudreifing orðið jafnari.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband