Sagnritun dr. Gylfa (4)

W08_Thorvaldur_Gylfason_speaker_ArnarhollNýlega sagði dr. Gylfi Zoëga í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti við mig, en ég hef sett fram þá skoðun, að bankahrunið hafi verið „svartur svanur“, óvæntur atburður, sem aðeins sé fyrirsjáanlegur eftir á. En auðvitað er það rétt, sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, að íslensku auðjöfrarnir fóru langt fram úr sjálfum sér. Þegar fyrrverandi ráðamenn eru hins vegar gagnrýndir fyrir að hafa ekki haldið þeim í skefjum, verður ekki aðeins að hafa í huga takmarkaðar valdheimildir þeirra, heldur líka hið einkennilega andrúmsloft í landinu. Þegar voldugasti auðjöfurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, sætti ákæru vorið 2005 fyrir ýmis efnahagsbrot, skrifaði vinur dr. Gylfa, Þorvaldur Gylfason: „Nú virðist standa til að jafna um Jón Ásgeir og fimm menn aðra fyrir rétti. Hvað býr að baki?“
Rannsóknarnefnd Alþingis sakaði í skýrslu sinni sjö fyrrverandi ráðamenn um vanrækslu, þótt hún beitti lögum afturvirkt, því að hún vísaði aðeins í lögin um nefndina sjálfa, og þau voru ekki sett fyrr en í árslok 2008. En spyrja má: Hvers vegna var þá Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki sökuð um vanrækslu? Hún hafði afgreitt viðvaranir Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra sem „útaustur eins manns“ og hvatt bankana í septemberbyrjun 2008 til að halda áfram innlánasöfnun sinni erlendis. Hún bar líka ábyrgð á því, sem var líklega eina alvarlega brotið á góðum stjórnsýsluvenjum í aðdraganda bankahrunsins, að bankamálaráðherrann var ekki hafður með í ráðum í Glitniskaupunum. Og hvað um Jón Sigurðsson, formann stjórnar fjármálaeftirlitsins? Samkvæmt lögum átti forstjóri fjármálaeftirlitsins að bera allar „meiri háttar ákvarðanir“ undir stjórnina. Var Jóni hlíft, af því að hann var æskuvinur föður eins nefndarmannsins, Sigríðar Benediktsdóttur? Og hafði það einhver áhrif, að varaformaður stjórnarinnar var gift einum starfsbróður annars nefndarmanns, Páls Hreinssonar? Ég tek fram, að meira máli skiptir að læra af reynslunni en leita uppi sökudólga, og eflaust er dr. Gylfi sammála mér um það. En ráðamennirnir sjö, sem rannsóknarnefndin hjó til, voru engu meiri sökudólgar en þau Ingibjörg Sólrún og Jón. Þetta fólk var allt að reyna að gera sitt besta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. febrúar 2024.)


Sagnritun dr. Gylfa (3)

DarlingBrown.KenJack:AlamyNýlega sagði dr. Gylfi Zoëga í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu íslenska bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti við mig, þótt ég sé ekki að reyna að endurskrifa söguna, heldur hafa það, sem sannara reynist. Hér skal ég benda á fjórar mikilvægar staðreyndir um bankahrunið, sem ég hef bent á, en aðrir leitt hjá sér, þar á meðal dr. Gylfi.
Fyrsta staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins þurfti ekki að beita hryðjuverkalögum til að koma í veg fyrir hugsanlega ólöglega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands. Þegar hafði verið girt fyrir þann möguleika með tilskipun Breska fjármálaeftirlitsins til Landsbankans 3. október 2008, þar sem bankanum var bannað að flytja fé úr landi nema með skriflegu leyfi fjármálaeftirlitsins og þriggja daga fyrirvara. (Það reyndist ekki heldur vera fótur fyrir ásökunum um ólöglega fjármagnsflutninga Kaupþings til Íslands, enda þagnaði allt tal um það skyndilega.)
Önnur staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins braut samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þegar hún bjargaði öllum breskum bönkum öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Með því mismunaði stjórnin eftir þjóðerni, sem var bannað samkvæmt samningnum og líka Rómarsáttmálanum. Furðu sætir, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli ekki hafa gert athugasemd við þetta.
Þriðja staðreyndin er, að þessir tveir bankar, Heritable og KSF, sem bresk stjórnvöld lokuðu, um leið og þau björguðu öllum öðrum breskum bönkum, reyndust eiga fyrir skuldum, þegar upp var staðið. Svo virðist sem sumir aðrir breskir bankar, sem fengu aðstoð, til dæmis RBS, Royal Bank of Scotland, hafi hins vegar ekki átt fyrir skuldum, þótt kapp sé lagt á að fela tapið og fresta uppgjörum.
Fjórða staðreyndin er, að íslensku bankarnir gerðust ekki sekir um nærri því eins alvarleg brot og til dæmis Danske Bank, sem varð uppvís að stórkostlegu peningaþvætti, og RBS, sem tók þátt í ólöglegri hagræðingu vaxta á millibankamarkaði. Það er kaldhæðni örlaganna, að Danske Bank og RBS hefðu báðir fallið haustið 2008, hefðu þeir ekki fengið lausafjáraðstoð frá bandaríska seðlabankanum og Englandsbanka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.)


Sagnritun dr. Gylfa (2)

RNAÍ nýlegri grein í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, kveður dr. Gylfa Zoëga marga reyna að endurrita sögu bankahrunsins. Með þessum „mörgu“ á hann við mig. En málið snýst ekki um að endurrita neina sögu, heldur hafa það, sem sannara reynist. Gylfi styðst við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Á henni eru margir annmarkar. Einn er, að nefndin yfirheyrði menn ekki í heyranda hljóði eins og rannsóknarnefndir í Bretlandi og Bandaríkjunum gera. Eðlilegt hefði verið að sjónvarpa beint frá yfirheyrslunum. Þess í stað valdi nefndin sjálf úr það, sem hún taldi eiga erindi í skýrslu sína. Stakk hún ýmsu forvitnilegu undir stól.

Annar annmarki er, að nefndin einblíndi á innlenda þætti bankahrunsins, sem vissulega voru mikilvægir, en setti það ekki í alþjóðlegt samhengi. Það var hörð fjármálakreppa í heiminum, sem skall af meiri þunga á Íslandi en öðrum löndum.

Þriðji annmarkinn er, að nefndin veitti ófullkomna skýringu á bankahruninu. Hún sagði bankana hafa fallið, því að þeir hefðu verið of stórir. Röklega er þessi skýring svipuð þeirri, að gler brotni, af því að það sé brothætt, eða ópíum svæfi vegna svæfingarmáttar síns. Stærðin var nauðsynlegt, en ekki nægilegt skilyrði fyrir bankahruninu. Svissnesku bankarnir hrundu ekki, og var stærð þeirra þó tíföld landsframleiðsla. Samkvæmt útreikningum dr. Gylfa sjálfs var stærð íslenska bankakerfisins fyrir hrun þess um 7,8-föld landsframleiðsla.

Fjórði annmarkinn á skýrslu nefndarinnar er, að hún vildi sefa almenning með því að leita uppi sökudólga í hópi ráðamanna, en fann enga (þótt gagnrýni hennar á bankamenn væri um margt réttmæt). Þess vegna skapaði nefndin sökudólga með því að víkka út vanræksluhugtak gildandi laga, svo að hún gæti sakað sjö ráðamenn um vanrækslu. Lögfræðingarnir í nefndinni, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson, vissu, hvað þeir voru að gera. Þeir tóku ætíð fram, að vanrækslan væri í skilningi laganna um nefndina, sem sett voru eftir bankahrunið. Til þess að sefa almenning beittu þeir lögum afturvirkt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2024.)


Sagnritun dr. Gylfa (1)

Dr. Gylfi Zoëga prófessor birti nýlega grein um bankahrunið í málgagni íslenskra vinstriöfgamanna, Heimildinni. Þar segir hann marga hafa reynt að skrifa söguna upp á nýtt. Þeir haldi því fram, að hið sama hafi gerst erlendis og hér á landi, að Bretar og Hollendingar hafi komið illa fram við okkur og að innlend stjórnvöld hafi staðið sig vel eftir bankahrunið. Hann telur sannleikskorn í þessum þremur skoðunum, en aðalatriðið sé að koma í veg fyrir nýtt bankahrun.
Taleb_mugLíklega á ég að taka sneiðina til mín. En ég hef ekki reynt að skrifa söguna upp á nýtt, heldur hafa það, sem sannara reynist. Ég held, að bankahrunið hafi orðið fyrir samverkan margra ólíkra þátta, sem af ýmsum ástæðum toguðu allir í sömu átt. Þetta hafi verið „svartur svanur“, eins og Nassim Taleb kallar það: mikill, óvæntur og ólíklegur atburður, sem verður ekki fyrirsjáanlegur, fyrr en hann er orðinn. Eins og skáldið sagði: Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir.
Þessir þættir voru: 1) Eigendur bankanna höfðu tekið lán fyrir hlutabréfum sínum og sáu verðmæti þeirra snarminnka í kreppunni frá hausti 2007. 2) Íslendingar höfðu komið sér út úr húsi í Danmörku, og Danske Bank vann gegn þeim. 3) Eigendur bankanna nutu lítils trausts erlendis. 4) Vogunarsjóðir veðjuðu óspart gegn bönkunum. 5) Seðlabankar G-10 ríkjanna sammæltust um það í maí 2008 að veita Íslandi ekki lausafjáraðstoð. 6) Innlánasöfnun bankanna erlendis mæltist illa fyrir. 7) Seðlabanki Evrópu krafðist betri trygginga en bankarnir gátu veitt. 8) Bandaríkin skeyttu engu um örlög Íslands. 9) Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Breta voru báðir Skotar og vildu sýna kjósendum sínum, að sjálfstæði væri varhugavert. 10) Lehman Brothers féll, skömmu áður en stórt lán Glitnis var á gjalddaga, svo að kreppan harðnaði og bankinn gat ekki útvegað sér fé. 11) Kaup ríkisins á Glitni mistókust, ekki síst þegar aðaleigendurnir fóru í herferð gegn þeim. Traustið minnkaði í stað þess að aukast. 12) Samfylkingin var höfuðlaus her, því að formaður hennar lá á sjúkrahúsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. janúar 2024.)


Ný sýn á gömul deilumál

David_Friedman_by_Gage_SkidmoreÁrið 2023 fór ég víða og hlustaði á marga fyrirlestra. Tveir voru fróðlegastir. Prófessor David D. Friedman, sem lauk doktorsprófi í eðlisfræði, en hefur löngum starfað sem hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Lissabon í apríl. Hann miðar rökræðunnar vegna við spálíkön milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar, en reynir að bera saman kostnað og ábata af hinni hugsanlegu hlýnun. Niðurstaða hans er, að erfitt sé eða ókleift að sýna fram á, að kostnaðurinn verði meiri en ábatinn. Fróðlegt var að hlusta á hann fara yfir málið og vitaskuld forvitnilegt að gera þennan samanburð, en einblína ekki á aðra hliðina.

Phil Gramm, sem var lengi bandarískur öldungadeildarþingmaður, en þar á undan hagfræðiprófessor, talaði á ráðstefnu í Bretton Woods í nóvember. Hann leiðir rök að því, að tölur frá bandarísku hagstofunni um tekjudreifingu veiti ekki rétta mynd af kjörum Bandaríkjamanna. Ólíkt því sem gerist víðast annars staðar séu tekjurnar ekki ráðstöfunartekjur, reiknaðar eftir skatta og bætur. Skattar lenda af miklu meiri þunga á tekjuháu fólki, en bætur renna í miklu meira mæli til tekjulágs fólks. Þegar tekið er tillit til þess, verður tekjudreifingin miklu jafnari. Gramm bendir á, að heildarneysla tekjulægsta hópsins samkvæmt tölum bandarísku hagstofunnar nemi um tvöföldum heildartekjum hans fyrir skatta og bætur.

Gramm segir, að samkvæmt nýjustu opinberum tölum séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins í Bandaríkjunum um 17-faldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. En bilið minnkar stórkostlega, eftir að reiknað hefur verið með sköttum og bótum. Þá séu tekjur 20% tekjuhæsta hópsins um fjórfaldar tekjur 20% tekjulægsta hópsins. Gramm heldur því fram, að í raun hafi fátækt minnkað í Bandaríkjunum síðustu áratugi og tekjudreifing orðið jafnari.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.)


Bloggfærslur 7. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband