Sagnritun dr. Gylfa (2)

RNAÍ nýlegri grein í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, kveður dr. Gylfa Zoëga marga reyna að endurrita sögu bankahrunsins. Með þessum „mörgu“ á hann við mig. En málið snýst ekki um að endurrita neina sögu, heldur hafa það, sem sannara reynist. Gylfi styðst við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Á henni eru margir annmarkar. Einn er, að nefndin yfirheyrði menn ekki í heyranda hljóði eins og rannsóknarnefndir í Bretlandi og Bandaríkjunum gera. Eðlilegt hefði verið að sjónvarpa beint frá yfirheyrslunum. Þess í stað valdi nefndin sjálf úr það, sem hún taldi eiga erindi í skýrslu sína. Stakk hún ýmsu forvitnilegu undir stól.

Annar annmarki er, að nefndin einblíndi á innlenda þætti bankahrunsins, sem vissulega voru mikilvægir, en setti það ekki í alþjóðlegt samhengi. Það var hörð fjármálakreppa í heiminum, sem skall af meiri þunga á Íslandi en öðrum löndum.

Þriðji annmarkinn er, að nefndin veitti ófullkomna skýringu á bankahruninu. Hún sagði bankana hafa fallið, því að þeir hefðu verið of stórir. Röklega er þessi skýring svipuð þeirri, að gler brotni, af því að það sé brothætt, eða ópíum svæfi vegna svæfingarmáttar síns. Stærðin var nauðsynlegt, en ekki nægilegt skilyrði fyrir bankahruninu. Svissnesku bankarnir hrundu ekki, og var stærð þeirra þó tíföld landsframleiðsla. Samkvæmt útreikningum dr. Gylfa sjálfs var stærð íslenska bankakerfisins fyrir hrun þess um 7,8-föld landsframleiðsla.

Fjórði annmarkinn á skýrslu nefndarinnar er, að hún vildi sefa almenning með því að leita uppi sökudólga í hópi ráðamanna, en fann enga (þótt gagnrýni hennar á bankamenn væri um margt réttmæt). Þess vegna skapaði nefndin sökudólga með því að víkka út vanræksluhugtak gildandi laga, svo að hún gæti sakað sjö ráðamenn um vanrækslu. Lögfræðingarnir í nefndinni, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson, vissu, hvað þeir voru að gera. Þeir tóku ætíð fram, að vanrækslan væri í skilningi laganna um nefndina, sem sett voru eftir bankahrunið. Til þess að sefa almenning beittu þeir lögum afturvirkt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband