Lífsgæðakapphlaupið

ks_400Þótt áramót séu engin sérstök tímamót, hefja þá jafnan upp raust sína ýmsir spekingar, sem segja okkur, séu þeir biblíufróðir, að lífsgæðakapphlaupið sé aðeins hégómi og sókn eftir vindi, en kunni þeir sinn Einar Benediktsson, erindisleysa með dugnaðarfasi. Þessir spekingar hrista höfuðið yfir eyðslu landsmanna og neyslu og fjölyrða um peningadýrkun. Þeir hafa ekki beinlínis rangt fyrir sér. Auðurinn er góður þjónn, en vondur húsbóndi, og allt er best í hófi. En margt má segja til varnar eða að minnsta kosti til skýringar lífsgæðakapphlaupinu, og þar sem fáir aðrir verða eflaust til þess um þessar mundir, skal ég taka það að mér.

Kapphlaup

Hvers vegna liggur nútímamönnum á? Margir hafa tekið eftir því, að fólk fer sér miklu hægar í sveitum en borgum og í suðrænum löndum en norrænum. Skýringin er einföld. Því fleiri tækifæri sem menn hafa úr að velja, því dýrmætari verður tími þeirra. Þeir þurfa þess vegna að skammta tímann skynsamlega, flýta sér, svo að þeir geti gert allt það annað, sem þeim stendur til boða hverju sinni. Ella eru þeir að missa af einhverju. Í sveitum er hins vegar fátt að gera og þess vegna þarf ekki að asa að neinu. Hið sama er að segja um suðræn lönd, þar sem allir sitja úti í veðurblíðunni og masa. Þeir gera það, af því að annarra kosta er ekki völ. Þeir eru ekki að missa af neinu. Kapphlaup nútímamanna er því eðlilegt viðbragð við fjölgun tækifæra.

Lífsgæði

Tækifærin, sem nútímamenn keppa að, eru umfram allt um að bæta lífskjör sín í víðasta skilningi. Þetta er mikils virði. Þegar botnlanginn springur í venjulegum Íslendingi, fer hann bót meinsins í einum uppskurði. Við búum við einhverja fullkomnustu læknisaðstoð og heilsuvernd í heimi. Það er, af því að Íslendingar hafa háar tekjur. Við höfum efni á þessu. Þegar Stephan G. Stephansson var unglingur, seint á nítjándu öld, sá hann nokkra jafnaldra sína þeysa saman á fákum fram hjá bóndabænum. Þeir voru á leið suður í Lærða skólann. Stephan hljóp út í móa og grét. Foreldrar hans voru of snauð til að setja hann til náms. Eftir nokkra leit fann móðir hans soninn. Þá sveið henni fátæktin mest. Nú þarf enginn fróðleiksfús unglingur að hverfa frá námi á Íslandi sökum efnaskorts.

Hagvöxturinn, sem er ávöxtur lífsgæðakapphlaupsins, er umfram allt fólginn í því að gera hlutina betur og ódýrar. Áður fyrr þurftu skóladrengirnir, sem Stephan sá við túnfótinn hjá sér, að nota þrjá daga í ferðina suður í Lærða skólann. Nú má aka sömu leið á þremur klukkustundum. Þannig spara menn sér tvo sólarhringa og 21 klukkutíma, sem þeir geta notað til einhvers annars. Áður fyrr þurfti til að framleiða eina bók skinn úr mörgum kálfum, blek úr sortulyngi og uppihald skrifara heilu veturna. Nú er venjulegur íslenskur verkamaður klukkustund að vinna fyrir einni vænni bók. Ólíkt því sem spekingarnir segja, snýst hagvöxtur ekki um að auka sífellt magn, heldur um að fjölga tækifærum.

Nautn eða fíkn

Í lífsgæðakapphlaupinu reyna menn að fullnægja þörfum sínum betur og ódýrar en áður. Þeir njóta lífsins. Mannlífinu fer fram. En spekingarnir horfa ásökunaraugum á okkur og segja titrandi röddu (ekki síst úr prédikunarstólum kirknanna), að við séum háð efnislegum gæðum. Við séum eyðslufíklar og neyslufíklar. Ég spyr á móti: Hver er munurinn á nautn og fíkn? Maður hefur áhuga á mat, leggur mikið á sig til að laga hann og getur ekki hugsað sér að vera án hans. Hann er sælkeri, en þarf ekki að vera átvagl. Öðrum manni þykir sopinn góður og fær sér ljúffengt rauðvín með hverri máltíð á kvöldin, jafnvel hátt í flösku í hvert sinn, en þetta stendur honum ekki fyrir þrifum. Er hann ekki hófdrykkjumaður fremur en ofdrykkjumaður? Þriðji maðurinn stundar líkamsrækt af krafti og er háður henni. En hún er honum nautn og ástæðulaust að tala um fíkn í því sambandi. Því er stundum haldið fram, að allt, sem sé gott, sé ýmist ósiðlegt, ólöglegt eða fitandi. Í lífsgæðakapphlaupinu öðlumst við margt, sem er gott án þess að vera neitt af þessu, ósiðlegt, ólöglegt eða fitandi.

Fréttablaðið 28. desember 2007.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband