Fimm daga stríðið 2008

HHG.Tbilisi.2022Fróðlegt er af mörgum ástæðum að koma til Georgíu í Kákasus. Landið byggir smáþjóð með langa sögu, eigin tungu og stafróf, sjálfstæða kirkju og mikinn menningararf. Hún hefur þó verið óheppnari með nágranna en Íslendingar: Rússar í norðri og Tyrkir og Íranir í suðri. Georgía var löngum sjálfstætt konungsríki, en Rússar lögðu landið undir sig árið 1800, og var þess ekki hefnt, fyrr en Georgíumaðurinn Josíf Dzhúgashvílí (sem nefndi sig Stalín) gerðist einræðisherra í Rússlandi, en verri sending var vandfundin. Georgía var sjálfstætt ríki aftur 1918–1921 og frá 1991. Rússar sættu sig við það um skeið. En þegar frjálslyndir lýðræðissinnar, sem vildu tengjast Vesturveldunum, komust til valda árið 2004, ókyrrðust þeir.

Tvö héruð í Georgíu eru byggð þjóðflokkum, sem eiga sér sérstakan uppruna og eigin tungur, Ossetar og Abkasar. Rússar studdu aðskilnaðarhreyfingar í þessum héruðum, en þegar skæruliðar í Suður-Ossetíu hófu árásir inn í Georgíu, lét herinn í Georgíu til skarar skríða gegn þeim 7. ágúst 2008. Þá brást rússneski herinn við með því að ráðast af öllu afli inn í Suður-Ossetíu og Abkasíu og raunar önnur héruð landsins líka. Eftir harða bardaga í fimm daga var 12. ágúst gert vopnahlé að undirlagi Nicolasar Sarkozys Frakklandsforseta, og eftir það hvarf rússneski herinn í áföngum frá Georgíu utan Suður-Ossetíu og Abkasíu. Norður-Ossetía er rússneskt hérað. Stríðið vakti ekki eins mikla athygli á alþjóðavettvangi og ella, því að Olympíuleikar voru háðir í Beijing á sama tíma. Rússar hafa síðan viðurkennt sjálfstæði Suður-Ossetíu og Abkasíu, en af því að nær engin önnur ríki gera það, gefa Rússar út vegabréf fyrir íbúana. Fólk af georgískum uppruna hefur unnvörpum verið hrakið úr þessum tveimur héruðum.

Heimurinn lét sér fátt um finnast. Rússar guldu ekki þessa stríðs á alþjóðavettvangi. Vesturveldin lærðu ekkert á því. En líklega hafa Rússar talið sig hafa lært margt af því.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. ágúst 2022. Myndin af mér er að flytja fyrirlestur í Tbílísí.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband