Fimmtíu ára stúdentar

MR6Við héldum upp á það á dögunum að vera orðin fimmtíu ára stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík, fyrst árgangurinn 1972 á sérstakri samkomu, síðan nokkrir afmælisárgangar ásamt nýstúdentum. Eflaust henta fjölbrautirnar ýmsum, en okkur fannst bekkjarfyrirkomulagið gott. Þegar ég var í þriðja bekk, varð ég einn fárra hægri manna til að greiða Davíð Oddssyni atkvæði sem inspector scholae, forseta nemendafélagsins, en flestir vinstri menn skólans studdu hann þá frekar en mótframbjóðandann Þorvald Gylfason, og eiga þeir sumir eflaust enn erfitt með að fyrirgefa sér það. Ég studdi líka árið eftir Geir H. Haarde, sem tók við embættinu af Davíð.

Við hlutum afar trausta undirstöðu í Menntaskólanum, og flest var þar í föstum skorðum. Einn minnisstæðasti kennari minn var Jón S. Guðmundsson, sem brýndi fyrir okkur að skrifa vandaða íslensku og fór af miklum þrótti yfir Eddukvæði, kafla úr Heimskringlu og Egils sögu. Hann vitnaði oft í kennara sinn í háskóla, Sigurð Nordal, til dæmis um, að Laxdæla hefði átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur, að líklega hefði Þorgeir Ljósvetningagoði ort Völuspá, þegar hann lá undir feldinum forðum, og að kalla mætti það góða íslensku, sem Jónas hefði skrifað og Konráð samþykkt. Tveir svipmiklir og ötulir kennarar mínir aðrir voru Ragnheiður Briem í þýsku og Ólöf Benediktsdóttir í ensku. Guðni Guðmundsson rektor kenndi mér aldrei, en hann stjórnaði skólanum röggsamlega. Hann var stundum hryssingslegur, en raungóður undir niðri.

Því miður eru þrír bekkjarbræður mínir í sjötta bekk látnir, dugnaðarforkurinn Gunnar Birgisson bæjarstjóri, Hlynur Antonsson, sem ógæfan elti, þótt hann væri hæfileikamaður, og Kjartan Magnússon stærðfræðiprófessor, víðlesinn öðlingur og góðvinur minn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. maí 2022. Myndin er af því, þegar Geir H. Haarde tók við inspectorstöðunni af Davíð Oddssyni.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband