Lærdómar á lífsleið

Við sátum á útiveitingastað í Belgrad (Hvítagarði) í Serbíu, þegar húmaði að, og röbbuðum saman um lífið og tilveruna. Bandarískur kaupsýslumaður, vinur minn, hafði tekið tvítugan son sinn með sér í ferðalag um Balkanlöndin. Hann spurði, hvort ég gæti gefið syninum einhver ráð um framtíðina. Ég fór að hugsa um, hvað ég hefði lært af reynslunni, minni eigin og annarra.

Eitt er, að raða má verðmætum lífsins svo, að fyrst komi heilsan, síðan fjölskylduhagir (ást og vinátta) og þá peningar. Séu menn við góða andlega heilsu, þá verða fjölskylduhagir þeirra líklega ákjósanlegir. Sé menn við góða líkamlega heilsu, þá geta þeir unnið sig út úr fjárhagslegum erfiðleikum.

Annað er, að í vali um nám og störf eiga menn að fara eftir áhugamálum sínum frekar en fjárvon. Áhugasamt fólk og ötult bjargar sér ætíð. Ég myndi líka hafa lært fleiri tungumál, væri ég yngri og ætti þess kost.

Hið þriðja er, að foreldrar geta aðeins gert þrennt fyrir börn sín: alið þau upp með því aðallega að veita gott fordæmi, styðja þau og hvetja til að mennta sig og hjálpa þeim með útborgun í fyrstu íbúð. Með þessu koma þau fótum undir börnin, en það er síðan barnanna sjálfra að ganga.

Iðulega sagði ég síðan nemendum mínum í stjórnmálafræði, að menn ættu að forðast að fjandskapast við þrjú öfl eða veldi í heiminum, því að þau sigruðu jafnan í átökum, þótt orðspor þeirra væri misjafnt: Bandaríkjamenn, Gyðingarnir og páfinn í Róm.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. maí 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband