Norðurlönd til fyrirmyndar

Á ráðstefnu norskra íhaldsstúdenta í Osló 21. maí 2022 benti ég á, að velgengni Norðurlanda væri þrátt fyrir, en ekki vegna ofurvalds sósíalista þar um miðja tuttugustu öld. Hún ætti sér aðallega þrjár rætur: Réttarríkið standi traustum fótum á Norðurlöndum, ekki síst virðing fyrir eignarréttinum; hagkerfið sé opið og áhersla lögð á frjáls alþjóðaviðskipti; og samheldni sé veruleg og almennt traust algengt, en það greiðir fyrir verðmætasköpun og gagnkvæmri aðlögun.

Á Norðurlöndum er einmitt til sterk frjálslyndishefð. Snorri Sturluson kom orðum að þeirri skoðun, að konungar væru settir undir sömu lög og þegnar þeirra og setja mætti þá af, brytu þeir þessi lög. Í ræðu Einars Þveræings sagði Snorri meira að segja, að konungar væru misjafnir og Íslendingum því best að hafa engan konung. Anders Chydenius, sænsk-finnskur prestur á átjándu öld, skrifaði bókina Þjóðarhag ellefu árum áður en Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith kom út 1776, en boðskapurinn var hinn sami: eins gróði þarf ekki að vera annars tap, og hagkerfið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.

Ég ræddi líka um hina víðkunnu sænsku hagfræðinga Gustav Cassel og Eli Heckscher, sem mæltu af mælsku fyrir atvinnufrelsi á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar. Þeir höfðu mikil áhrif, líka á sænska jafnaðarmenn, sem fóru sér þess vegna hægar en í upphafi var ætlunin. Margt af því, sem Jón Þorláksson skrifaði uppi á Íslandi, var einmitt ættað frá Cassel, meðal annars hin fræga ritgerð „Milli fátæktar og bjargálna“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. maí 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband