Nordal og nemendur hans

Sigurður Nordal prófessor var einhver áhrifamesti ritskýrandi Íslendinga fyrr og síðar. Hann var snjallt skáld, góður rithöfundur og fyrirlesari og hafði sérstakt lag á fólki. Það leyndi sér ekki heldur, að hann var maður vitur, hafði jafnan þaulhugsað það, sem hann sagði.

Í Oxford sagði mér roskinn kennari í engilsaxneskum fræðum, að Nordal hefði komið þangað og haldið fyrirlestra og hefði mönnum þar þótt mikið til hans koma. Góður vinur minn var sendill hjá kaupmanninum, föður sínum, í æsku og fór þá oft með sendingar heim til Nordals á Baldursgötu. Kvað hann engan mann sér óvandabundinn hafa verið elskulegri og skemmtilegri. Gaf Nordal sér tíma til að rabba við sendilinn unga og gaf honum jafnvel bækur, sem hann taldi honum hollt að lesa.

Svo sem nærri má geta, mótaði Nordal nemendur sína í Háskóla Íslands. Kjartan Sveinsson bókavörður sagði að vísu háðslega í hinni bráðskemmtilegu bók sinni, Afbrigðum og útúrdúrum, sem kom út 2005: „Hann kunni best við þá  hvolpa, sem hann hafði sjálfur alið, þótt ekki fengi hann alltaf þakkir frá þeim að sama skapi.“

Einn nemandi Nordals var Jón S. Guðmundsson, sem kenndi mér íslensku í menntaskóla. Man ég enn vel eftir sumu því, sem hann hafði í kennslustundum eftir Nordal. Eitt var þetta: „Laxdæla saga hefði átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur. En líklega hefur tíðarandinn ekki leyft, að saga væri kennd við konu.“

Seinna komst ég að því, að fleiri hafa bent á þetta. Til dæmis kallaði Albert U. Bååth þýðingu sína á Laxdæla sögu, sem kom út árið 1900, „Sagan om Gudrun“. Breski norrænufræðingurinn Bertha S. Phillpotts sagði líka í Edda and Saga frá 1931, að Guðrún væri svo fyrirferðarmikil í Laxdæla sögu, að hún mætti heita ævisaga hennar.

Annað, sem Nordal sagði nemendum sínum og Jón S. Guðmundsson okkur, nemendum sínum: „Hefur Þorgeir Ljósvetningagoði ekki verið að yrkja Völuspá undir feldinum? Hún er svo sannarlega ort á mótum heiðni og kristni.“

Þórarinn Eldjárn fræddi mig síðan á því, að líklega hefði Nordal sagt nemendum sínum eitt, sem Þórarinn fann skrifað eftir honum í minniskompu föður síns, Kristjáns forseta: „Það, sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“

Snjallt, skýrt, einfalt — þaulhugsað.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 7. maí 2011 og er sótt í marga staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er barmafull af þjóðlegum fróðleik, fæst í öllum bókabúðum og er tilvalin útskriftargjöf.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband