Stjórnin á að segja af sér

Vitaskuld er eðlilegast og rökréttast, að vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar segi af sér, eftir að kjósendur hafa tvisvar gert hana afturreka með mál, sem hún ræður bersýnilega ekki við, Icesave-málið.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni, að vinstri stjórnin hefur pólitískan hag af því, að framhaldið gangi ekki vel, því að þá getur hún sagt við kjósendur: „Þarna sjáið þið. Svona fór, af því að þið fellduð samninginn okkar.“ Stjórnin mun því ekki beita sér af fullri festu og einurð í málinu fremur en fyrri daginn. Í Icesave III björguðu samningamenn stjórnarandstöðunnar því, sem bjargað varð.

Nýir og harðskeyttari menn ættu að taka við og veita forystu í þeim málum, sem þarf að reka. Taka þarf upp hina dæmafáu beitingu hryðjuverkalaganna bresku gegn Landsbankanum og fá líka skýringar á því, hvers vegna Bretar neituðu banka í eigu Kaupþings um fyrirgreiðslu einum breskra banka á ögurstund. 

Svara þarf fullum hálsi mönnum eins og aðstoðarfjármálaráðherra Breta, sem segir digurbarkalega, að nú þurfi að gjaldfella skuld Íslendinga. Hvaða skuld? Við skuldum Bretum ekki eitt einasta pund. Þeir skulda okkur hins vegar skýringar á beitingu hryðjuverkalaganna og ruddalegri lokun Singer & Friedlander.

En hvar eru nýir menn?

Ef forysta Sjálfstæðisflokksins hefði beitt sér fyrir nei, þá hefði í fyrsta lagi munurinn á Nei-i og já-i áreiðanlega orðið meiri, líklega 70% gegn 30% í stað 60% gegn 40%, og þá hefði hún í öðru lagi haft siðferðilegt og pólitískt umboð til að taka málið úr höndum þessarar ólánsstjórnar.

Það sást strax og Ólafur Ragnar Grímsson tók að tala máli Íslendinga í sjónvarpi erlendis, hversu mikilvægt er að hafa þar öfluga talsmenn. Það sást líka á hinum mögnuðu skrifum Davíðs Oddssonar í Morgunblaðinu, hversu mikill munur er annars vegar á reyndum og kjörkuðum stjórnmálamanni eins og honum og hins vegar á mörgu því fólki, sem gefur sig að stjórnmálum um þessar mundir; það er ýmist að bugast undan fortíðarklyfjum sjálfs síns eða dauðhrætt við íslensku valdastéttina, á fjölmiðlum og í háskólum og voldugum hagsmunasamtökum, en sú stétt lagðist nánast óskipt á sveif með jáinu.  

Langlíklegast er þó, að hin auma vinstri stjórn ríghaldi sér áfram í ráðherrastólana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband