Grein mín í Wall Street Journal í gær

Wall Street Journal birti eftir mig grein í gær, sem nefnist „Íslendingar segja nei“. Þar reyni ég að skýra, hvers vegna Íslendingar sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-samningana og hverjar afleiðingarnar verða utan lands og innan.

Íslendingar sögðu nei, af því að þeir vildu ekki greiða skuldir óreiðumanna. Kapítalistar eru velkomnir til Íslands, en þeir hljóta að taka ábyrgð á eigin gerðum eins og við hin. Hvergi er bókstafur um það í alþjóðlegum samningum eða samevrópskum reglum, að ríkissjóður Íslands beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem hér var settur upp. Bretar og Hollendingar tóku það upp hjá sjálfum sér til að afstýra áhlaupi á aðra banka í löndum sínum að snara út fé fyrir innstæðum á Icesave-reikningum.

Afleiðingarnar af neituninni verða, að talsmenn breskra og hollenskra stjórnvalda tala illa um Ísland í nokkra daga, en gera fátt. Þeir senda væntanlega ekki fallbyssubáta hingað eins og Bretar gerðu, þegar við færðum út fiskveiðilögsöguna á áttunda áratug síðustu aldar. Þeir munu hika við að sækja skaðabætur fyrir dómstólum, því að það er flókið mál og getur snúist gegn þeim. Þrotabú Landsbankans mun hvort sem er vonandi nægja að mestu leyti fyrir öllum forgangskröfum, þar á meðal kröfum breskra og hollenskra innstæðueigenda. Lánsfjárhæfi Íslands mun augljóslega aukast til langs tíma litið, því að landið skuldar minna við það, að Icesave-samningarnir taka ekki gildi.

Afleiðingarnar innan lands eru einkum þrjár. Hin veika ríkisstjórn veikist enn. Aðild að Evrópusambandinu verður ólíklegri, því að ESB beitti sér hart gegn Íslendingum í þessari deilu. Og þeir tveir gömlu og reyndu stjórnmálamenn, sem lögðust gegn samþykkt samningsins, Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum og Davíð Oddsson í Morgunblaðinu, styrkjast báðir.

Mér til mikillar ánægju sé ég síðan, að Wall Street Journal birti ritstjórnargrein í dag, þar sem tekið er undir sjónarmið Íslendinga í deilunni, og þykist ég vita, hvaða ritstjóri blaðsins situr þar við lyklaborð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband