Bestu rökin í Icesave-málinu

Ég tek undir það með Agli Helgasyni, að mikilvægt er, að menn missi ekki stjórn á sér í lokasprettinum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl næstkomandi. Sjálfur ætla ég að segja nei, en ég þekki marga góða menn, sem segjast ætla að segja já, þótt ég voni, að þeir skipti um skoðun. En Aðalsteinn Jónasson lögfræðingur hefur sett fram afar skýr rök fyrir því að segja nei, og geri ég orð hans að mínum:

Það eru sjö meginástæður fyrir því að ég er staðráðinn í því að segja nei við Icesave-samningnum í kosningunum hinn 9. apríl næstkomandi. Þær eru eftirfarandi:

1. Fjárhæð skuldbindingar er háð algerri óvissu þrátt fyrir samning

Ég lærði eina grundvallarreglu af foreldrum mínum þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem fjárráða einstaklingur. Reglan er sú að undirgangast aldrei greiðsluskyldu samkvæmt samningi nema vita nákvæmlega hver hún er. Öðruvísi getur maður ekki metið hvort og þá hvernig maður ætlar að standa við hana. Þrír stórir áhættuþættir hafa veruleg áhrif á greiðsluskyldu Íslands samkvæmt Icesave-samningnum:

a) Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að greiðsluskyldan sé í erlendum gjaldmiðlum, án þess að gengi krónunnar sé fest. Þetta hefur í för með sér að veiking krónunnar hækkar skuldbindingu Íslands. Ekkert þak er sett á veikingu krónunnar og því ríkir fullkomin óvissa um hversu mikið skuldbinding Íslands kann að hækka vegna þessa. Þessi óvissa kann að koma í veg fyrir að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin (eða tefja verulega ferlið), en tilvist þeirra getur beinlínis leitt til þess að mörg stærstu fyrirtæki landsins fari úr landi, með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð.

b) Í öðru lagi ræðst greiðsluskyldan af því hversu mikið fæst greitt upp í skuldina af eignum Landsbanka Íslands hf. Vonandi duga eignir bankans að fullu, en nú ríkir fullkomin óvissa um hve mikið muni fást greitt upp í kröfurnar. Settar hafa verið fram getgátur um það miðað við núverandi aðstæður. Þær aðstæður geta hins vegar breyst til hins verra án þess að ríkissjóður eða aðrir geti nokkuð við það ráðið.

c) Í þriðja lagi er hugsanlegt að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að sú breyting neyðarlaganna að færa innlánskröfur úr flokki almennra krafna í flokk forgangskrafna standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Jafnvel þótt íslenskir dómstólar telji að það hafi verið heimilt er óvíst hvað Mannréttindadómstóll Evrópu gerir ef málið verður sent áfram þangað. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að breytingin standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar munu áhrifin verða þau að innlánskröfurnar falla í flokk almennra krafna, sem aftur þýðir að eignir Landsbankans munu ekki duga nema að mjög litlu leyti fyrir skuldbindingunni með tilheyrandi hækkun á greiðsluskuldbindingu ríkissjóðs.

Hver einstakur áhættuþáttur sem talinn er upp hér að ofan getur hækkað greiðsluskuldbindingu Íslands um tugi eða hundruð milljarða króna án þess að ríkissjóður eða aðrir geti nokkuð við því gert. Í fyrirliggjandi samningi er ekki að finna fullnægjandi fyrirvara, gangi þessir áhættuþættir eftir að hluta til eða í heild sinni. Þar er ekki að finna ákvæði um að greiðsluskuldbindingin breytist eða falli niður við þessar aðstæður. Það er óviðunandi að mínu mati. Sumir segja að líkurnar á að þeir komi fram séu litlar eða engar. Aðrir eru ósammála og segja líkurnar vera umtalsverðar. Kjarni málsins er að það veit enginn hvernig þessir áhættuþættir munu þróast. Að mínu mati skiptir engu máli hversu miklar líkurnar eru, það er nóg að óvissan sé til staðar. Í ljósi framangreinds er furðulegt að heyra fólk tala um að það ætli að ,,kjósa sig frá Icesave« eða ,,setja málið aftur fyrir sig«. Það er einfaldlega ekki hægt á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Einnig fær það ekki staðist að rétt sé að samþykkja samninginn vegna þess að ,,dómstólaleiðin sé háð svo mikilli óvissu og áhættu«. Vissulega er dómstólaleiðin háð óvissu en hún er svo sannarlega ekki meiri en af því að samþykkja samninginn. Þvert á móti hafa menn fært góð rök fyrir því að sú leið sé í raun áhættuminni.

2. Bretar og Hollendingar axla enga ábyrgð samkvæmt samningnum

Fyrirliggjandi samningur gerir ekki ráð fyrir að Bretar og Hollendingar axli neina ábyrgð. Þrátt fyrir það liggur ljóst fyrir að eftirlitsaðilar þessara ríkja fengu upplýsingar um uppbyggingu innstæðutryggingakerfisins áður en útibú Landsbankans voru stofnuð í þessum löndum. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sem byggjast á tilskipunum Evrópusambandsins, voru eftirlitsaðilum í Bretlandi og Hollandi veittar upplýsingar um ,,tryggingar innlána og bótakerfi sem verndar viðskiptavini útibúsins«, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þessir eftirlitsaðilar vissu, eða máttu í öllu falli vita, hvernig tryggingu innlánseigenda var háttað og gátu brugðist við því á viðeigandi hátt, teldu þeir uppbyggingu kerfisins á Íslandi stofna hagsmunum viðskiptavina útibúsins í hættu. Þrátt fyrir þetta axla Bretar og Hollendingar enga ábyrgð. Ekki er nóg með að Bretar og Hollendingar axli enga ábyrgð samkvæmt samningnum heldur taka þeir litla sem enga áhættu með gerð samningsins. Þeir fá þannig greiddan höfuðstól meintrar skuldar með vöxtum sem eru hærri en þeirra eigin fjármögnunarkostnaður, að viðbættum kostnaði við útgreiðslu.

3. Samningsbrot leiðir ekki sjálfkrafa til skaðabótaskyldu

Ýmsir hafa bent á að það sé umtalsverð hætta á að Ísland tapi málinu ef það fer fyrir EFTA-dómstólinn. Hvort sem sú hætta er mikil eða lítil er ljóst að jafnvel þótt EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi gerst brotlegt við ákvæði EES-samningsins hefur það ekki sjálfkrafa í för með sér skaðabótaskyldu ríkissjóðs. Til eru fjölmörg dæmi um að aðildarríki EES-samningsins hafi gerst brotleg við samninginn, án þess að bótaskylda hafi stofnast. EFTA-dómstóllinn dæmir ekki um skaðabótaskyldu. Skaðabótamál yrði að höfða fyrir íslenskum dómstólum þar sem myndi reyna á ýmis sjónarmið, eins og t.d. um skiptingu sakar vegna gáleysislegrar framgöngu eftirlitsaðila Breta og Hollendinga. Af fræðimönnum á sviði Evrópuréttar hefur auk þess verið bent á að til að bótaskylda komi til álita fyrir samningsbrot á EES-samningnum, þurfi brot að vera ,,nægilega alvarlegt«. Að mínu mati er ólíklegt að dómstólar muni komast að þeirri niðurstöðu að hugsanlegt brot á EES-samningnum verði talið nægilega alvarlegt til að bótaskylda geti stofnast. Vissulega fylgir óvissa ef til slíks dómsmáls kemur, en hún er að mínu mati ekki meiri en sú óvissa sem fylgir fyrirliggjandi Icesave-samningi.

4. Engin trygging er fyrir því að aðgangur atvinnulífs að lánsfé muni aukast

Margir halda því fram að verði samningurinn ekki samþykktur, muni íslensk fyrirtæki ekki fá fullnægjandi aðgang að lánsfé. Ef horft er á þá óvissuþætti sem óumdeilanlega fylgja samþykki Icesave-samningsins er erfitt að sjá fyrir sér af hverju aðgengi íslenskra fyrirtækja að lánsfé ætti að aukast við það eitt að samningurinn verði samþykktur. Engin trygging er fyrir því að slíkt aðgengi muni aukast, hvorki í fyrirliggjandi samningi né annars staðar. Sum lánshæfismatsfyrirtæki hafa hótað að færa skuldabréf ríkissjóð í svokallaðan ,,ruslflokk«, verði samningurinn ekki samþykktur. Slíkum hótunum verður að taka með fyrirvara um tengsl þessara fyrirtækja við Breta. Vægi matsfyrirtækjana hefur auk þess verulega minnkað í kjölfar hrunsins, eftir að í ljós kom að þau höfðu gefið ýmsum vafasömum skuldavafningum, sem voru seldir víða um heim, góða einkunn þrátt fyrir enga innistæðu. Ástæður fyrir litlu aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendu fjármagni eru margar. Ein stór ástæða, sem erlendir lánveitendur horfa til, er setning neyðarlaganna sem hafði í för með sér að kröfum þeirra var mismunað með afturvirkum hætti gagnvart innlánskröfum. Erlendir kröfuhafar óttast þannig að fá kröfur sínar ekki greiddar til baka, vegna setningar afturvirkrar löggjafar. Þessu munu erlendir kröfuhafar ekki gleyma næstu árin.

5. Samfélag án ábyrgðar verður samfélag án frelsis

Einstaklingar og lögaðilar verða sjálfir að bera ábyrgð á þeim skuldbindingum sem þeir stofna til. Enginn á að geta stofnað til skuldbindinga sem falla á ríkissjóð. Einstaklingar og lögaðilar þurfa frelsi til að vaxa og dafna, en frelsinu á að fylgja ábyrgð. Ef frelsið hefur í för með sér kvaðir á samfélagið á borð við þær sem Icesave-samningurinn felur í sér þá munu íslenskir launþegar eðlilega gera þá kröfu að frelsi einkafyrirtækja verði takmarkað. Ef almenningur þarf að axla ósanngjarna ábyrgð á gjörðum annarra munum við því framvegis búa í samfélagi án frelsis. Einungis Alþingi Íslendinga hefur umboð til að stofna til ábyrgðar fyrir íslenskt samfélag. Um þetta gilda lög um ríkisábyrgðir nr. 121/2007 sem segja berum orðum í 1. gr.: ,,Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum. Ríkissjóður má ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum þeim sem ábyrgð heimila.« Enginn einstaklingur eða lögaðili hefur samkvæmt þessu umboð til að stofna til ábyrgðar ríkissjóðs og skiptir engu máli hvort þar er um ráðherra að ræða eða aðra. Ísland sem þjóð á undir engum kringumstæðum að þurfa að axla ábyrgð á skuldum einkafyrirtækis. Því til viðbótar er rétt að vekja athygli á þeirri staðreynd sem hefur verið bent á, að vegna óvissunnar um endanlega fjárhæð greiðsluskuldbindingarinnar, sé hugsanlegt að samningurinn stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar. Hvað sem því líður er í öllu falli ljóst að skuldbindingin samkvæmt fyrirliggjandi Icesave-samningi fullnægir ekki þeim skilyrðum sem lög um ríkisábyrgð gera til ríkisábyrgðar. Ástæðan er einföld: Óvissa um fjárhæð skuldbindingarinnar og þar með áhrif hennar á ríkissjóð. Með lögunum um heimild til handa fjármálaráðherra til að gangast í ríkisábyrgð fyrir Icesave-skuldinni er ákvæðum laga nr. 121/1997 um ríkisábyrgðir vikið til hliðar. Þjóðin mun því ekki njóta góðs af þeirri vernd sem þeim lögum var ætlað að veita.

6. Freistnivandi leiðir til óábyrgrar hegðunar

Ef íslenskt samfélag viðurkennir að einkafyrirtæki geti stofnað til skuldbindinga á kostnað ríkisins skapast sú hætta að stjórnendur fyrirtækja og einstaklingar freistist til að hegða sér með óábyrgum hætti (freistnivandi), t.d. með óhóflegri skuldasöfnun eins og gerðist hjá mörgum fyrirtækjum í aðdraganda hrunsins. Slík hegðun er hættuleg þar sem hún eykur líkur á tjóni fyrir samfélagið í heild sinni. Ef það er einhver lærdómur sem við eigum að draga af hruninu, er það að koma í veg fyrir slíka hegðun en ekki ýta undir hana. Með því að samþykkja Icesave erum við að ýta undir óábyrga hegðun.

7. Grundvallar-mannréttindi að fá að beina réttarágreiningi til dómstóla

Dómstólar hafa það hlutverk að leysa úr ágreiningi sem kemur upp milli aðila. Það eru grundvallar-mannréttindi að fá að vísa ágreiningi sínum til dómstóla, án þess að þurfa að þola hótanir á borð við þær sem Bretar og Hollendingar hafa viðhaft gagnvart Íslandi. Margir innlendir og erlendir fræðimenn hafa fært góð rök fyrir því að ríkissjóður hafi ekki brugðist skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Íslendingar eiga rétt á því að fá úrlausn dómstóla um þetta ágreiningsefni og þá jafnframt hvort og þá hver hugsanleg bótaskylda er.

Í ljósi framangreinds leyfi ég mér að hvetja kjósendur til að falla ekki í þá gryfju að segja já undir þeim formerkjum að kominn sé tími til að ,,kjósa sig frá málinu« eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Það er lykilatriði að allir kjósendur kynni sér öll sjónarmið vel áður en farið er á kjörstað, þar á meðal áhættuna sem sannanlega fylgir því að segja já. Mín skoðun er sú að þeir áhættuþættir séu of margir til að óhætt sé að samþykkja samninginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband