Þegar Orwell skaut fílinn

Fyrsta hefti Þjóðmála á þessu ári er nýkomið út. Þetta er 7. árgangur tímaritsins. Þar á ég grein, sem heitir „Þegar Orwell skaut fílinn“ á 49.–53. bls. Hún er um fræga smásögu Orwells, „Shooting an Elephant,“ sem hefur tvisvar komið út í íslenskum þýðingum, fyrst hjá Rauðum pennum 1937, síðan í greinasafni eftir Orwell, Stjórnmálum og bókmenntum, sem var eitt af lærdómsritum Bókmenntafélagsins 2009.

Smásaga Orwells hefur jafnan verið lesin sem dæmisaga um það, hvernig breska heimsveldið spilli starfsmönnum sínum og liðsmönnum. En ég stakk upp á öðrum úrlestri úr sögunni, sem lesendur geta kynnst, ef þeir eru áskrifendur að Þjóðmálum eða kaupa tímaritið í bókabúðum. Ég sé, að tímaritið fæst meira að segja í Melabúðinni, þar sem ég versla stundum eftir sund.

Smásaga Orwells nýttist mér í rannsóknarverkefni, sem ég annast nú og nefnist: „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting“. Einn liðurinn í því verkefni er að kanna, hvernig koma megi í veg fyrir útrýmingu ýmissa „þokkafullra risadýra“ eins og fíls og nashyrnings og sumra hvalategunda, svo sem steypireyðurs (en margar aðrar hvalategundir, til dæmis hrefnan og langreyðurinn, eru alls ekki í neinni útrýmingarhættu).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband