Hugsað til Japans

Hamfarir þær og hættur, sem Japanir búa nú við, eru ótrúlegar. Jarðskjálftarnir voru svo öflugir, að þeir hnikuðu til möndli jarðar, að því er mér skilst. En ef einhverjir eru menn til að ráða fram úr erfiðleikum, þá búa þeir á þessum eyjum í Kyrrahafi. Japanir eru kunnir að þrautseigju og hetjulund.

Ég hef þrisvar verið í Japan. Fyrst var það árið 1988, þegar ég sótti þar ráðstefnu í Tokýo og Kýoto. Þá var allt fáránlega dýrt þar, enda eigna- og lánsfjárbóla í landinu, sem sprakk. Ég fór með hinni kunnu hraðlest á milli borganna tveggja og dáðist að því, hversu vel Japanir hafa nýtt sér tækni til að létta sér lífið.

Næst var ég þar eystra sem Sasakawa-styrkþegi árið 2000, og þá kynntist ég betur landi og þjóð. Japanir eru agaðir, vinnusamir, hreinlátir með afbrigðum, vinsamlegir og kurteisir, en samt grunar mig, að þeir hafi fordóma gegn öðrum þjóðum. Fáir tala ensku vel, og japanska er mjög erfið Vesturlandabúum. Landið er fallegt, en mestallt afar þéttbýlt. Ég bjó í Roppongi-hverfinu í Tokýo og flutti fyrirlestra við ýmsa háskóla.

Síðast var ég í Japan haustið 2001, og þá varð ég svo frægur að hitta keisarann og tala við hann. Hann hélt boð fyrir nokkra helstu gestafyrirlesarana á ráðstefnu Fiskifélags Japans í Yokohama, en hann er eins og faðir hans sjávarlíffræðingur að mennt. Þyrfti langt mál til að lýsa þeim helgisiðum, sem fylgt er í samtölum við keisarann.

Raunar hljóma orð eins og „samtal við keisarann“ forneskjulega á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld. En aðalatriðið er, að nú glíma þegnar hans við mikinn vanda, og  hljótum við öll að óska þeim velfarnaðar í þeirri glímu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband