Vonir Íslendinga og vonbrigði

Íslendingar hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Önnur ástæðan er auðvitað, að þau hafa ekki risið undir ábyrgð. Þau létu heift í garð gamalla andstæðinga ráða ferð, þegar Davíð Oddsson var rekinn úr Seðlabankanum og Geir H. Haarde leiddur fyrir landsdóm. Þau brutu rétt á mönnum, þegar þau laumuðust til að ráða gamla trotskistann í Seðlabankann, áður en umsóknarfrestur um seðlabankastjórastöðuna var liðinn. Þau hafa haldið verndarhendi yfir skuldakóngnum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í bönkunum, af því að þau hafa viljað hafa stuðning af fjölmiðlum hans. Alvarlegustu afglöp þeirra voru þó Icesave-samningarnir. Þar sömdu þau um mörg hundruð milljarða króna hærri greiðslur til Breta og Hollendinga en seinna reyndist að mati þeirra eigin manna nauðsynlegt að greiða.

Hin ástæðan tengist þeim Jóhönnu og Steingrími hins vegar ekki beint sem einstaklingum. Hún er sú skoðun, að í stjórnmálum sé að finna ráð við hverjum vanda, að skapa megi verðmæti á fundum og því meiri verðmæti sem fundirnir standi lengur. Menn, sem binda vonir sínar við stjórnmál til lausnar mála, verða óhjákvæmilega fyrir vonbrigðum. Þeir ætlast til of mikils af stjórnmálamönnum. Verðmæti eru ekki sköpuð á fundum og því síður löngum fundum, heldur af hagsýnum einstaklingum, hverjum í sínu horni, sem láta stjórnast af ávinningsvon og fá sæmilegar upplýsingar með gróða og tapi á frjálsum markaði um það, hvar ávinningurinn sé mestur, hvernig best sé að fullnægja þörfum náunganna fyrir vöru eða þjónustu.

Stjórnmál eru nauðsynleg. Við þurfum að ráða saman úr ýmsum málum. En þau eru háð mjög miklum takmörkunum og eru lítt til þess fallin að leysa úr ýmsum öðrum málum, til dæmis ákvörðunum um neyslu eða fjárfestingu og um leið um framtíðarvöxt atvinnulífsins. Ískyggilegt er, hvernig mikið vald hefur síðustu misseri verið fært frá hinum 330 þúsund einstaklingum, sem á Íslandi búa, og í hendur 63 atvinnustjórnmálamanna, sem eiga að heita fulltrúar þeirra. Borgararnir munu halda áfram að verða fyrir vonbrigðum með þessa fulltrúa sína, því að þeir ætlast til of mikils af þeim. Við þurfum dreifstýringu í stað miðstýringar, lága skatta í stað hárra, viðskipti í stað valdboðs, verðlagningu í stað skattlagningar, dugnað í stað mælskubragða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband