Viðtal um Landsdómsmálið í fréttum Sagnfræðingafélagsins

Tilefni bókarinnar
 
„Ég hitti eitt sinn á förnum vegi Garðar Gíslason hæstaréttardómara, sem sat í minni hluta landsdóms, og hann benti mér á, að stjórnarskrárákvæðið, sem Geir H. Haarde var sakfelldur fyrir að brjóta, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni, var sett árið 1920 og hafði þá skýra merkingu. Einn ráðherra fór jafnan til Kaupmannahafnar tvisvar á ári og bar upp málefni sín og annarra ráðherra fyrir konungi í ríkisráði, og tryggja varð, að þeir stæðu með honum að málefnunum. Eftir lýðveldisstofnun var almennt litið svo á, að ákvæðið tæki til málefna, sem atbeina forseta þyrfti til. Meiri hluti landsdóms gaf þessu ákvæði alveg nýja merkingu og miklu víðari í því skyni að geta sakfellt Geir fyrir eitthvað. Mér varð ljóst, að sakfellingin var ekki aðeins um hlægilegt aukaatriði, heldur var hún beinlínis röng lögfræðilega. Síðan fór ég að grúska í málinu og komst þá að ýmsu nýju, svo að bókin óx í höndunum á mér. Það var að lokum bókin, sem skrifaði mig, ekki ég, sem skrifaði bókina.“
 
Hvað kom á óvart?
 
„Tvennt kom mér aðallega á óvart. Annað var það, hversu hart Steingrímur J. Sigfússon beitti sér gegn Geir. Þeir höfðu verið góðir vinir. Þegar Steingrímur slasaðist eitt sinn alvarlega, hafði Geir heimsótt hann á sjúkrahús, og þegar Steingrímur átti stórafmæli, hafði Geir komið með konu sinni alla leið norður í Þistilfjörð og haldið ræðu fyrir afmælisbarnið. En í bankahruninu umhverfðist Steingrímur. Hann sló til Geirs í reiði sinni á þingi, og hann var einn helsti hvatamaðurinn að því að draga Geir fyrir landsdóm.
 
Hitt atriðið, sem kom mér á óvart, var, hversu viljugir sumir lögfræðingar voru til þess að breyta skoðunum sínum, þegar það hentaði. Þeir Tryggvi Gunnarsson og Páll Hreinsson höfðu báðir látið í ljós þá skoðun fyrr á árum, að menn gerðu sig vanhæfa til að fara með mál, hefðu þeir látið í ljós eindregna afstöðu til þeirra eða sambærilegra mála. En þegar Sigríður Benediktsdóttir sagði beinlínis, að bankahrunið væri að kenna „glæfralegu andvaraleysi“ Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans (þótt hún nefndi þær stofnanir ekki með nafni, heldur skírskotaði til lögbundinna hlutverka þeirra), vildu þeir ekki víkja henni úr nefndinni fyrir vanhæfi.
 
Annað dæmi var, að Jónatan Þórmundsson hafði skrifað margar ritgerðir um breytingar á réttarfari og líka minnisblað í febrúar 2010 til þingmannanefndarinnar, sem átti að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þar sem hann lagði áherslu á réttindi sakborninga. En síðan skrifaði Jónatan álitsgerð til þingmannanefndarinnar í júní 2010, þar sem hann taldi rétt að ákæra fjóra ráðherra, þótt ekki hefði farið fram nein sakamálarannsókn. Hann bætti meira að segja við sakarefnum, sem rannsóknarnefndin hafði skoðað og horfið frá að gera að ásökunarefnum, meðal annars ásökun um stjórnarskrárbrot.
 
Þriðja dæmið var, að árið 2005 skrifaði Eiríkur Tómasson álitsgerð fyrir vin sinn og flokksbróður, Halldór Ásgrímsson, um, að þeir Halldór og Davíð Oddsson hefðu ekki brotið nein lög eða venjur, þegar þeir lýstu yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna í Írak í febrúar 2003. En sami Eiríkur greiddi atkvæði með því í landsdómi árið 2012, að Geir H. Haarde hefði framið stjórnarskrárbrot með því að setja ekki yfirvofandi bankahrun á dagskrá ráðherrafunda.“
 
Nýmæli í bókinni
 
„Nýmælum bókarinnar má skipta í tvennt,“ segir Hannes. „Annars vegar er um að ræða atriði, sem ég vek athygli á, en aðrir hafa einhverra hluta vegna horft fram hjá: 1) Ásakanir rannsóknarnefndar Alþingis um vanrækslu voru allar í skilningi laga, sem sett voru eftir bankahrun. Þar var verið að beita lögum afturvirkt. 2) Rannsóknarnefndarmennirnir voru á ýmsan hátt tengdir bönkunum. 3) Þingmannanefndin bætti við þremur sakarefnum, sem rannsóknarnefndin hafði horfið frá því að bera fram eftir að hafa fengið svör við þeim, og þessum viðbótum fylgdi enginn rökstuðningur og því síður einhver rannsókn. 4) Þingmannanefndin ákærði án þess að gera sakamálarannsókn, sem hún hafði þó fulla lagaheimild til að gera. 5) Ákæruvaldið hafði talsverð áhrif á, hverjir sátu í landsdómi, m. a. hver yrði forseti landsdóms, hver yrði fulltrúi héraðsdóms í Reykjavík og hver tæki sæti, þegar einn dómari varð að víkja vegna veikinda. Þetta var mjög óeðlilegt. Það hefðu átt að vera sömu dómendur allan tímann. 6) Þau Markús Sigurbjörnsson og Björg Thorarensen virðast hafa ákveðið það saman, hvort þeirra tæki sæti í landsdómi. 7) Meiri hluti landsdóms sýknaði að vísu Geir fyrir öll efnisleg atriði, en sakfelldi hann umfram ákæru fyrir brot á stjórnarskrá.
 
Hins vegar er um að ræða staðreyndir, sem áður voru ókunnar eða lítt kunnar. 1) Sigríður Benediktsdóttir hafði persónulegar ástæður til að líta Landsbankann hornauga og hlífa stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins. 2) Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fund með seðlabankastjórum og forsætisráðherra 26. september 2007, þar sem Davíð Oddsson varaði við bankahruni, og mánuði seinna hóf hún ásamt eiginmanni sínum að færa skuldbindingar sínar í Kaupþingi í einkahlutafélag. 3) Þorgerður seldi afganginn af hlutabréfum sínum í Kaupþingi sama dag, 30. september 2008, og Davíð gekk á fund ríkisstjórnarinnar til að segja, að bankarnir væru að hrynja. 4) Ingibjörg Sólrún Gísladóttir átti leynilegan fund með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni og Sigurði G. Guðjónssyni í janúarlok 2008, þar sem þeir sögðu henni, að vandi bankanna væri ekki bundinn við Glitni. 5) Þrír fyrrverandi þingflokksformenn Samfylkingarinnar áttu fund með Jóhönnu Sigurðardóttur 12. september 2010, þar sem þeir sögðu henni, að Samfylkingin myndi klofna, yrði einhver Samfylkingarráðherra ákærður fyrir landsdómi. 6) Helgi Hjörvar skipulagði atkvæðagreiðsluna um ákærur í samráði við Jóhönnu Sigurðardóttur og væntanlega Steingrím J. Sigfússon. 7) Eiríkur Tómasson birti í febrúar 2009 grein á netinu, sem síðan hvarf, þar sem hann kenndi beinlínis ráðherrum um bankahrunið. 8) Eiríkur hafði geymt fyrir STEF mikið fé í peningamarkaðssjóðum, og tapaðist 30% af því. Sjálfur tapaði Eiríkur talsverðu fé á hlutabréfum í bönkum. 9) Eiríkur hafði opinberlega sagt, að það jafngilti stuldi, þegar innstæður fengu forgang fram yfir inneignir í peningamarkaðssjóðum, en það gerðist með neyðarlögunum, sem Geir fékk samþykkt.
 
Ég varpa síðan fram rökstuddum tilgátum, sem erfitt er þó að sanna, um ýmis atriði: 1) hvaða þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði Samfylkingarmönnum, að Sjálfstæðismenn myndu greiða atkvæði gegn öllum ákærum óháð niðurstöðu um ákæru á hendur Geir H. Haarde, 2) hvaða dómari í meiri hluta landsdóms hafði efasemdir um niðurstöðuna, 3) hvaða aðili skrifaði álit Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs.“
 
 
 
 
 

Tvö sjónvarpsviðtöl um landsdómsmálið

Hér hafa verið klippt saman tvö viðtöl við mig  um landsdómsmálið, annars vegar við Egil Helgason í Silfrinu og hins vegar við Sigmund Erni Rúnarsson á Fréttavaktinni.


Bloggfærslur 28. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband